Átök Sigurbjörg Jóhannsdóttir leikmaður Fram skýtur að marki Gróttu.
Átök Sigurbjörg Jóhannsdóttir leikmaður Fram skýtur að marki Gróttu. — Árvakur/Frikki
GÓÐ byrjun er skammgóður vermir eins og Gróttustelpur fundu rækilega fyrir í Safamýrinni í gærkvöldi.

GÓÐ byrjun er skammgóður vermir eins og Gróttustelpur fundu rækilega fyrir í Safamýrinni í gærkvöldi. Fimm marka forskot var fljótt að gufa upp gegn einbeittu liði Fram, sem sló ekki af fyrr en það hafði 11 marka forystu og vann að lokum 25:19, sem tryggir því áfram efsta sæti deildarinnar, ósigrað með 25 stig úr 14 leikjum.

Eftir Stefán Stefánsson

Allt féll með gestunum af Seltjarnarnesi í byrjun, sem náðu 7:2 forystu þegar Fram náði aðeins að skora eitt mark í 11 sóknum á 11 mínútum. Korteri síðar hafði taflið snúist við, Fram komið með 10:9 forystu. Hvorki gekk né rak hjá Gróttu og síðustu 11 mínútur fyrri hálfleiks og fyrstu 11 í þeim síðari skoraði liðið aðeins 2 mörk á meðan Fram skoraði 12 og náði 8 marka forystu. Ágæt tilraun Gróttu til að klóra í bakkann hélt um tíma aftur af Fram en þegar forskotið var komið í 11 mörk, 25:14, var flestum skipt inn á af varamannabekk Fram.

Ekki nógu fljótar í gang

„Við vorum ekki alveg nógu fljótar í gang en við erum með baráttuandann í okkar liði, komum sterkar til baka og gerðum út um leikinn í seinni hálfleik,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir sem var markahæst hjá Fram með 6 mörk og sagði tap í bikarkeppninni ekki slá liðið út af laginu „Breiddin skiptir mjög miklu máli og við höfum nýtt okkur það vel í vetur, til dæmis í meiðslum, því það kemur alltaf maður í manns stað. Sjálfstraustið kemur auðvitað með því að vera efstar í deildinni og við ætlum að halda okkur á toppnum. Fyrst við erum út úr bikarkeppninni, getum við einbeitt okkur að þessu móti.“ Kristina Kvedariene var góð í markinu og Marthe Sördal, Ásta Birna Gunnarsdóttir, Sigurbjörg Jóhannsdóttir og Pavla Nevarilova áttu góðan leik að öðrum ólöstuðum.

Eins og smákrakkar

Alfreð Finnsson, þjálfari Gróttu, var að vonum ekki sáttur við sitt lið. „Við byrjuðum vel en svo var sóknarleikurinn lélegur svo að forskotið gufaði upp á nokkrum mínútum þegar leikmenn skiluðu sér ekki til baka í vörnina og einhver pirringur í þeim. Við vorum eins og smákrakkar, ég veit ekki hvað mörg tæknimistök við gerðum, svo við áttum aldrei möguleika. Svo eru lykilleikmenn okkar, útlendingarnir, ekki svipur hjá sjón. Við höfum alltaf tapað þessum stórleikjum í vetur og það varð engin breyting þar á,“ sagði Alfreð eftir leikinn. Orð að sönnu því lítið sást til skyttunnar Pövlu Plaminkovu eða Tönju Zukovsku en Aukse Visnyaukaite var þó lengi ágæt. Karólína Gunnarsdóttir fór á kostum í byrjun en Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Eva Björk Hlöðversdóttir ásamt Írisi Björk Símonardóttur markverði voru bestar hjá Gróttu.