Átök Frá einvígi aldarinnar 1972, Bobby Fischer og Borís Spasskí tefldu í Laugardalshöll. Þar lauk nær þriggja áratuga einokun Sovétmanna.
Átök Frá einvígi aldarinnar 1972, Bobby Fischer og Borís Spasskí tefldu í Laugardalshöll. Þar lauk nær þriggja áratuga einokun Sovétmanna. — Ljósmynd/ Kristinn Ben
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is Ein frægasta og umdeildasta goðsögn skáksögunnar er látin í Reykjavík.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Ein frægasta og umdeildasta goðsögn skáksögunnar er látin í Reykjavík. Bobby Fischer var 64 ára þegar hann lést og þótt hann tefldi ekkert opinberlega frá 1972, ef undanskilið er einvígið við Spasskí í Júgóslavíu 1992, er ferillinn stórbrotinn. Hann batt í „Einvígi aldarinnar“ enda á nær þriggja áratuga einokun Sovétmanna á heimsmeistaratigninni og fullyrti að hann hefði sannfært heiminn um að Bandaríkjamenn ættu ekki síður gáfumenn en aðrar þjóðir en þeir ekki þakkað sér á viðeigandi hátt.

En andúð hans á samlöndum sínum snerist smám saman upp í hatur, einkum þegar hann var sakaður um að brjóta gegn samskiptabanni SÞ gegn Júgóslavíu með einvíginu við Spasskí 1992. Það sem Bandaríkjamenn áttu erfiðast með að fyrirgefa honum voru alræmd ummæli 11. september 2001 þegar fréttir höfðu borist af árásunum á New York og Washington þar sem um 3.000 manns létu lífið. Fischer hringdi þá í útvarpsþátt á Filippseyjum og sagði þetta vera „dásamlegar fréttir“. Hann sagðist vona að Bandaríkjaher tæki völdin og „loki öllum sýnagógum, handtaki alla gyðinga og hundruð þúsunda samsærismanna úr röðum gyðinga“.

„Gott að sjá þá engjast“

Þótt Fischer verði að sjálfsögðu aðallega minnst í framtíðinni fyrir snilld sína við taflborðið var hann síðustu árin alræmdur fyrir hatursfullar yfirlýsingar af þessu tagi. Hann sýndi oft á ferlinum merki um vænisýki á háu stigi. Og sumt sem hann sagði um andstæðinga við skákborðið var ekki beinlínis mannúðlegt. „Mér finnst gott að sjá þá engjast,“ sagði hann. Aðrir geta sagt að Fischer hafi bara verið hreinskilnari og minni diplómat en aðrir skákmenn, þeir hafi kunnað betur listina að þegja.

Fischer bar ekki gæfu til að fylgja sigrinum á Spasskí eftir heldur hætti að keppa opinberlega næstu 20 árin. Alþjóðaskáksambandið svipti hann heimsmeistaratitlinum 1975 enda sumar kröfur Fischers vegna fyrirhugaðs einvígis við Anatolí Karpov í reynd óaðgengilegar.

Lengi eftir 1975 var lítið vitað um Fischer, hvar hann var og hvað hann hafði fyrir stafni. Vitað er að hann lét mikinn hluta af verðlaunafénu úr einvíginu við Spasskí renna til sértrúarsafnaðar er boðaði endurkomu Krists, Worldwide Church of God, sem hann tengdist lengi en sleit síðar tengslin við. Hann var handtekinn í Kaliforníu snemma á níunda áratugnum vegna þess að lögreglan taldi hann hafa átt aðild að bankaráni. Var Fischer þá fúlskeggjaður og eins og umrenningur til fara. Hann harðneitaði að segja til nafns og varð því að dúsa í fangelsinu þangað til borin voru kennsl á hann.

Ljóst er að Fischer var gæddur snilldargáfu á afmörkuðu sviði og fullyrt er að greindarvísitala hans hafi verið 181, hærri en hjá afburðamönnum eins og Albert Einstein. Fölsk hógværð þjakaði hann ekki – hann var eitt sinn spurður hver væri fremstur skákmanna og svaraði: „Það er fallegt að vera hógvær en það væri asnalegt ef ég segði ekki sannleikann. Það er Fischer.“

En hann var maður sem gerði erfiðar kröfur til samferðamanna sinna. „Herra Fischer er ekki maður sem auðvelt er að fást við,“ sagði dasaður forseti Alþjóðaskáksambandsins, Hollendingurinn Max Euwe, þegar heimsmeistaraeinvígið var sett í Reykjavík að hinum óútreiknanlega Fischer fjarstöddum 1972.

Heillandi eða óþolandi

Og það sem aðdáendunum fannst heillandi við hann fannst öðrum einfaldlega óþolandi. Hann krafðist óbilandi hollustu af vinum sínum, gerði endalaust kröfur á hendur keppinautum sínum, gerði alls kyns kröfur um aðbúnað á skákmótum og skipti jafnvel um skoðun jafnflótt og tekist hafði að uppfylla óskir hans.

Liðsmenn Skáksambands Íslands þurftu að taka á honum stóra sínum á mótinu 1972 og lagt var kapp á að mismuna ekki keppinautunum. Ef annar fékk glæsivagn varð hinn að fá annan jafn flottan. Þegar Sæmundur Pálsson varð aðstoðarmaður Fischers lagði einhver til að Magnús, eineggja tvíburabróður Sæmundar, yrði fenginn til að gegna sama hlutverki fyrir Spasskí. „Þá getum við sagt að við leysum öll vandamál, jafnréttið sé fullkomið!“ sagði einn stjórnarmanna sambandsins í þröngum hópi.

Lífshlaupið

*9. mars 1943: Robert James Fischer fæðist í Chicago. Móðir hans var Regina Fischer, af þýskum gyðingaættum en faðirinn Hans-Gerhardt Fischer, þýskættaður lífeðlisfræðingur. Hjónin skildu þegar Bobby var tveggja ára.

*Maí 1949: Eldri systir hans, Joan, kennir honum mannganginn þegar hann er sex ára. Hann verður fljótlega hugfanginn af skák.


*Júlí 1956: Fischer, sem er 13 ára, verður yngstur allra til að vinna unglingamót Bandaríkjanna. 14 ára að aldri sigrar hann á meistaramóti Bandaríkjanna og gerir það sjö sinnum í viðbót næstu árin. Hann verður alþjóðlegur meistari 15 ára, sá yngsti í sögunni á þeim tíma.

*September 1972: Fischer verður heimsmeistari í skák í Reykjavík þegar hann sigrar Borís Spasskí frá Sovétríkjunum. Hann missir hins vegar titilinn 1975 til Anatólís Karpovs eftir að ekki náðist samkomulag um margvíslegar kröfur Fischers varðandi einvígi þeirra.

*September 1992: Fischer teflir opinberlega í fyrsta sinn í tvo áratugi er hann heyr aftur einvígi við Spasskí, í þetta sinn í Sveti Stefan í þáverandi Júgóslavíu. Fischer sigrar en einvígið er brot á samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um bann við samskiptum við stjórn Slobodans Milosevic vegna mannréttindabrota hennar.

*September 2001: Fischer lýsir í útvarpsviðtali á Filippseyjum fögnuði sínum yfir hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin. Hann segir að „þurrka beri Bandaríkin af yfirborði jarðar“ og segir að gyðingar séu „skepnur sem ljúga og stela“.

*13. júlí 2003: Fischer er handtekinn í Japan og hótað brottvísun til Bandaríkjanna þar sem hann hefði sætt ákæru fyrir að hafa hunsað samskiptabannið gegn Milosovic. Hann er í níu mánuði í varðhaldi í Japan en þá samþykkir Alþingi að veita honum ríkisborgararétt á Íslandi.

*17. janúar 2008: Fischer deyr í Reykjavík af völdum nýrnasjúkdóms.

Helgi Ólafsson minnist einmana snillings sem Íslendingar tóku upp á arma sína

Fischer ruddi brautina fyrir flesta aðra en sjálfan sig

Eftir Helga Ólafsson

Bobby Fischer varð skákmeistari Bandaríkjanna 14 ára gamall og yngsti stórmeistari heims nokkrum mánuðum síðar. Eftir ótrúlegustu sigurgöngu skáksögunnar var hann krýndur heimsmeistari í Reykjavík hinn 10. september 1972. Hinn 22. september 1972 afhenti borgarstjórinn í New York, John Lindsay, honum lykil að borginni og kvað upp úr að þessi dagur yrði dagur Bobbys Fischers í New York.

Hann sneri frá Íslandi sem bandarísk þjóðhetja og kom hingað aftur seint um kvöld 23. mars 2005 eftirlýstur í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Þá hafði hann setið í fangelsi í Japan í níu mánuði. Á sama tíma og hann flaug hingað með íslenskt vegabréf í fórum sínum höfðu bandarísk stjórnvöld samband við utanríkisráðuneyti Íslands og sögðu að koma Fischers til Íslands breytti engu, hann yrði handtekinn yfirgæfi hann landið.

Goðsögn í lifanda lífi

Knattspyrnuhetjan Pelé segir á einum stað í ævisögu sinni að á einhverjum punkti á ferli sínum hafi nafn hans farið að lifa sjálfstæðu lífi. Það sama má segja um Bobby Fischer. Nafn hans gnæfði yfir alla aðra meistara skákarinnar löngu eftir einvígið 1972. Hann gerbreytti ímynd skákarinnar á alheimsvísu og ruddi braut nýjum tækifærum fyrir flesta aðra en sjálfan sig.

Fischer virðist hafa hreyft við ímyndunarafli fjölmargra listamanna. Hann kemur við sögu í kvikmyndum, t.d. Searching for Bobby Fischer og Fresh með Samuel Jackson í aðalhlutverki, söngleikurinn Chess hefði aldrei verið skrifaður nema vegna sögu Fischers.

Um ástæður þess hvers vegna hann hafnaði öllum þeim ótal tilboðum sem honum buðust eftir einvígið 1972 skal ekkert fullyrt hér, en að hann skyldi afsala sér heimsmeistaratitlinum árið 1975 þó að Filippseyingar hefðu boðið fram 5 milljóna dollara verðlaunafé fyrir einvígi hans við áskorandann Anatoly Karpov, var mörgum erfiður biti að kyngja.

Og árin liðu. Fischer var í „sjálfvalinni útlegð,“ sögðu blöðin en annað veifið bárust fréttir um möguleg einvígi. Ég hitti Borís Spasskí 1987 og hann var þá nýkominn af fundi Fischers í Pasadena. Þeir ræddu um mögulegt einvígi en mér fannst þetta orðin fremur þreytt tugga og lagði varla við hlustir. En svo kom einvígið við Borís Spasskí í Sveti Stefan og Belgrad 1992.

„Mesta endurkoma sögunnar síðan Napóleon ýtti einmöstrungi sínum úr vör frá eyjunni Elbu árið 1815,“ skrifaði Charles Krauthammer í Time . Síðasti sigur Fischers var dýru verði keyptur. Með því að tefla aftur eftir 20 ára hlé var honum gefið að sök að hafa virt að vettugi viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna. Handtökuskipanin var gefin út í Bandaríkjunum í kjölfarið en kom þó ekki í veg fyrir að hann fengi nýja vegabréfsáritun árið 1997. Í júlí 2004 var hann hinsvegar handtekinn á Narita-flugvellinum í Tókýó á leið til Manila.

Veiðiferð í Gljúfurá

Nokkrum dögum eftir að Fischer kom til landsins fór ég með Sæmundi Pálssyni upp á sama hótelherbergi og hann hafði þegar „einvígi aldarinnar“ fór fram. Það var ekki erfitt að hitta mann í fyrsta sinn sem hafði verið þáttur í lífi manns um áratuga skeið. Bobby var afar ánægður fyrstu daga og mánuði dvalarinnar á Íslandi. Undir lok ágúst 2005 fórum við í veiði í Gljúfurá ég, Jóhann Sigurðarson, Viggó Hilmarsson og Bobby. Þessi ferð byrjaði ekki vel því Bobby hafði allt á hornum sér vegna viðskipta sinna við svissneska bankann UBS. Eins og rakið hefur verið annars staðar hafði bankinn sagt upp viðskiptum sínum við hann að öllum líkindum vegna þrýstings frá Bandaríkjunum. Bankinn hafði leyst upp eigur hans og sent á reikning í Landsbankann. Mér varð á að spyrja spurningar sem var sennilega fremur illa orðuð og fékk yfir mig þvílíka reiðilestrargusu að ég taldi öruggast að hafa mig lítt í frammi. En þegar við komum í veiðikofann var Bobby búinn að taka gleði sína aftur. Hann fór síðan út í á að veiða með Viggó og eftir fimm mínútur var hann búinn að landa sex punda hrygnu. Þegar ég spurði hann hvort hann ætlaði ekki að veiða meira sagði hann: „Nei, ég er búinn að veiða minn lax, þessi dugar.“ Um kvöldið tók Jóhann fram gítarinn og þá kom á daginn að Bobby kunni meira og minna alla dægurlagatextana. Hann söng hástöfum og við hinir líka og hver með sínu nefi. Þegar Green, green grass of home var tekið útskýrði Bobby fyrir okkur textann sem inniheldur harmleik sem hafði einhverja samsvörun við hans eigið líf. Sú stund er einhver sterkasta minning sem ég á um hann. Hrifnæmi hans yfir fyrirbærum eins og norðurljósunum kom sterkt fram þetta kvöld. Þegar við snerum aftur og Bobby kom heim í búð sína við Klapparstíg rétti hann Miyako laxinn hróðugur á svip.

Þreifingar um einvígi

Eftir að Fischer kom hingað til lands vandi hann komur sínar í bókaverslun Braga við Hverfisgötuna. Hann hlustað mikið á fréttatíma BBC og hafði mikinn áhuga á efni sagnfræðilegs eðlis. Hann fór oft í kvikmyndahúsin en sjaldan á öldurhús. Hann var ágætur í snóker og keppti eitt sinn við frægan íslenskan snókermeistara og vann af honum tvo ramma.

Hann var mikill áhugamaður um tónlist, einkum þó soul- og blues-tónlist. Jackie Wilson var í sérstöku uppáhaldi hjá honum. Hann hitti hina þekktu söngkonu Pattie Smith þegar hún kom til landsins haustið 2005. Þau ræddu um tónlist í u.þ.b. tvær klukkustundir.

Hann virtist því miður vera orðinn afhuga skáklistinni en margvíslegar þreifingar áttu sér stað um einvígi í því sem kallað hefur verið Fischer random eða Chess 960. Fischer kom fram með nýja skáklukku fyrir einvígi sitt við Spasskí árið 1992. Klukkan hefur bókstaflega slegið í gegn en hann vann að endurbótum á henni og hönnuðir frá Seiko komu hingað til lands til skrafs og ráðgerða en engir samningar náðust um framleiðslu.

Fischer missti móður sína og systur fyrir meira en tíu árum. Hann var dulur um sína einkahagi og lítið fyrir að flíka tilfinningum sínum. Hann sagði yfirleitt skoðun sína umbúðalaust hvort sem mönnum líkaði betur eða verr. Stundum fór hann offari í yfirlýsingum sínum en hafa ber í huga að það kom yfirleitt þegar brotið hafði verið á rétti hans. Hann mat mikils þá tryggð sem vinkona hans Miyako Watai sýndi honum en hún fór langa leið á hverjum degi til að heimsækja hann í fangelsið fyrir utan Tókýó. Garðar Sverrisson og fjölskylda hans voru Bobby mikill stuðningur í erfiðum veikindum hans undir það síðasta. Ég er á þeirri skoðun að þrátt fyrir allt geti menn verið stoltir af því að hafa lagt í þann leiðangur að ná Bobby Fischer úr fangelsi í Japan. „Glæpur“ hans var sá að hafa teflt aftur eftir 20 ára hlé. Þegar hann kom hingað til lands hafði hann verið landflótta í 12 ár. Hann fann skjól á Íslandi og var yfirleitt ánægður hér enda að mestu leyti í friði fyrir fjölmiðlum.

„Hann var frumherjinn mikli“

Garrí Kasparov segir að Fischer muni verða minnst meðal skáklistin lifir

Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, segist í samtali við Morgunblaðið harma mjög fráfall Bobbys Fischers sem hafi verið afburðamaður og markað djúp og byltingarkennd spor í sögu skáklistarinnar.

„Hann var vissulega mjög umdeildur maður en framlag hans til skáklistarinnar var einstakt, það er það sem við minnumst núna. Þegar ég var ungur strákur að tefla á áttunda áratugnum fylgdist ég eins og margir aðrir með sigrum Bobbys Fischers. Ég man enn hrifninguna sem við fundum fyrir þegar hann sigraði árið 1972 í Reykjavík. Og aðdragandinn, hvernig hann bókstaflega rúllaði upp frábærum mönnum eins og Taímanov, Larsen, Petrosjan og loks Spasskí, þetta var ótrúlegt. Þegar maður er átta eða níu ára og skákstjarnan í borginni sinni vill maður helst verða eins og sá besti í heimi. “

Kasparov segir Fischer hafa verið fyrirmynd heillar kynslóðar skákmanna, hann segist sjálfur hafa gleypt í sig bók kappans, My 60 Memorable Games. „Fischer var einstakt fyrirbæri í þeim skilningi að enginn gat komist hjá því að dá hann.“

Kasparov segist oft hafa hugsað til þess hve stórkostlegt það hefði verið ef Fischer og Anatolí Karpov hefðu teflt einvígi eins og til stóð 1975. Fischer hefði hins vegar verið yfirlýsingaglaður, sett ýmis skilyrði fyrir einvíginu sem engin leið hefði verið að fullnægja, meðal annars af pólitískum ástæðum. Atburðarásin öll hefði ekki einvörðungu skaðað álit hans heldur skáklistarinnar sem slíkrar.

„Það er ákaflega slæmt og hörmulegt að hann skyldi síðustu áratugina vera að mestu í hálfgerðu tómarúmi, áður en hann loksins settist að á Íslandi.

Fischer var að sjálfsögðu að mörgu leyti mjög erfiður maður og oft erfitt að átta sig á ýmsum yfirlýsingum hans og gerðum þegar hann sat ekki við skákborðið. En það er allt liðið og skiptir núna engu máli. Sem skákmaður var hann frumherjinn mikli í skák atvinnumanna, framlag hans mun lifa næstu áratugina, eins lengi og skáklistin verður til munu menn minnast Fischers.“