Tríó Reykjavíkur Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari, Peter Maté píanóleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari flytja létta klassíska tónlist í byrjun hvers árs. Í ár njóta þau liðfylgis Bergþórs Pálssonar og Diddúar.
Tríó Reykjavíkur Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari, Peter Maté píanóleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari flytja létta klassíska tónlist í byrjun hvers árs. Í ár njóta þau liðfylgis Bergþórs Pálssonar og Diddúar. — Árvakur/Golli
Eftir Gunnhildi Finnsdóttur gunnhildur@mbl.is SÖNGSTJÖRNURNAR Bergþór Pálsson og Sigrún Hjálmtýsdóttir koma nú aftur fram á nýárstónleikum Tríós Reykjavíkur eftir nokkurt hlé. „Það eru þrjú ár síðan þau Beggi og Diddú hafa verið með okkur.

Eftir Gunnhildi Finnsdóttur

gunnhildur@mbl.is

SÖNGSTJÖRNURNAR Bergþór Pálsson og Sigrún Hjálmtýsdóttir koma nú aftur fram á nýárstónleikum Tríós Reykjavíkur eftir nokkurt hlé. „Það eru þrjú ár síðan þau Beggi og Diddú hafa verið með okkur. Við höfum verið með aðra frábæra söngvara, en þau eru komin aftur og það finnst okkur mjög gaman,“ segir Guðný Guðmundsdóttir sem skipar Tríó Reykjavíkur ásamt þeim Peter Máte píanóleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara. Tríóið hefur síðustu ár staðið fyrir nýárstónleikum þar sem klassísk tónlist í léttari kantinum er í fyrirrúmi. „Það kemur alltaf upp góð stemning og við finnum upp á allskonar sprelli líka. Við gerum ýmislegt fleira en að spila og syngja,“ segir Guðný sem vill ekki spilla ánægjunni fyrir tónleikagestum með því að gefa meira upp.

Tvennir tónleikar verða haldnir, á sunnudagskvöld og mánudagskvöld. Báðir fara fram í Hafnarborg og hefjast klukkan átta.

Klassík í ársbyrjun

Hefð er að skapast fyrir því að fagna nýju ári og hækkandi sól með klassískum tónleikum og þess vegna hefur verið mikið úrval af þeim undanfarið. „Við sem stöndum fyrir þessum tónleikum reynum að rekast ekki á hvert annað og dreifa þessu svolítið svo að fólk komist á alla viðburði sem það hefur áhuga á,“ segir Guðný.

Í lagavali verður lögð áhersla á létta og skemmtilega tónlist. „Það er þessi stemning sem fólk hefur gaman af á þessum árstíma. Þetta verða tónleikar til þess að virkilega njóta, hvort sem fólk telur sig hafa vit á tónlist eða ekki og bæði fyrir unga og aldna. Við gerum svo alltaf eitthvað skemmtilegt í leiðinni og reynum að koma fólki svolítið á óvart.“

Verk eftir Strauss, Lehár, Kálmán og síðast en ekki síst Mozart eru meðal þess sem boðið verður uppá. „Mozart er náttúrulega helsta Vínartónskáldið og það verða þarna til dæmis smá sýnishorn úr Töfraflautunni. Beggi og Diddú verða líka með lög úr bandarískum söngleikjum eins og Porgy og Bess og ég ætla að spila sígaunaljóðið fræga eftir Pablo de Sarasate.“

Guðný segir mikla grósku í klassískri tónlist þessa dagana og ungt og vel menntað tónlistarfólk vera að gera nýja og spennandi hluti. „Það eru svo margir nýir sprotar að koma upp og ný form og ný sköpun að verða til þar sem klassísk tónlist blandast inn. Hinsvegar stendur þessi gamla tónlist alltaf fyrir sínu og stendur á gömlum merg, Bach og Mozart eru ómissandi hluti af menningunni rétt eins og Laxness og Kjarval.“