Svanfríður Lárusdóttir fæddist í Reykjavík 1963. Hún á að baki víðtæka menntun á sviði ræðu- og sölumennsku og hefur starfað sem söluþjálfari og leiðbeinandi, m.a. á vegum JCI þar sem hún hefur alþjóðleg leiðbeinendaréttindi.

Svanfríður Lárusdóttir fæddist í Reykjavík 1963. Hún á að baki víðtæka menntun á sviði ræðu- og sölumennsku og hefur starfað sem söluþjálfari og leiðbeinandi, m.a. á vegum JCI þar sem hún hefur alþjóðleg leiðbeinendaréttindi. Svanfríður hefur starfað við sölu og ráðgjöf, og er nú prentráðgjafi hjá Háskólaprenti. Sambýliskona Svanfríðar er Guðbjörg Ottósdóttir félagsráðgjafi og eiga þær tvö börn.

Svanfríður Lárusdóttir er leiðbeinandi á námskeiðinu Blandaðu þér í hópinn sem haldið verður næstkomandi miðvikudag. Námskeiðið er haldið í samstarfi við KMK, og fer fram í húsakynnum Samtakanna '78, á 4. hæð Laugavegar 3.

„Þátttakendur læra á námskeiðinu að „mingla“, nýta sér þá möguleika sem gefast til að kynnast nýju fólki og efla tengslanet sitt,“ segir Svanfríður, sem um árabil hefur starfað sem leiðbeinandi hjá JCI. „Þau ráð sem kennd verða gagnast jafnt í kokteilboðum og vinnustaðasamkvæmum, á viðskiptaráðstefnum og -fundum, og raunar á hverskyns mannamótum þar sem hægt er að stofna til nýrra kynna.“

Svanfríður segir algengt að Íslendingar kunni ekki að blanda geði, og nýti sér ekki þau tækifæri sem felast í að byggja upp gott tengslanet: „Gott tengslanet getur komið sér mjög vel í starfi, og gagnast bæði kaupendum og seljendum. Hægt er að ná hverskonar markmiðum með því að byggja upp vandað tengslanet með skipulögðum hætti og með því að kunna að kynnast fólki þegar tækifæri gefst til,“ segir Svanfríður. „Íslendingar eru margir óframfærnir í margmenni, og hættir til að króa sig af úti í horni með sínum hópi. Hver kannast ekki við fermingarveislurnar þar sem aðgreindir hópar ættarinnar setjast hver í sitt horn og engin blöndun verður. Sama gerist á faglega sviðinu, að fólki hættir til að hreiðra um sig í félagsskap vinnufélaganna frekar en efna til nýrra tengsla.“

Námskeiðið er um tveir tímar á lengd, og segir Svanfríður margt hægt að læra á svo stuttum tíma: „Við lærum verklega, æfum verkefni við ímyndaðar aðstæður og höfum umræður í hóp,“ segir hún. „Meðal annars munu þátttakendur læra að lesa úr líkamstáknmáli fólks, og finna réttu manneskjuna í hverjum hópi til að gefa sit á tal við. Einnig förum við yfir tækni til að flokka og þekkja fólk af nafnspjöldum sem skipst er á, og við lærum með virkum hætti að komast yfir þann feimniþröskuld sem hindrar okkur í að gefa okkur á tal við ókunnuga.“

Námskeiðsgjöld eru kr. 2.500 og er námskeiðið öllum opið. Skrá þarf þátttöku með tölvupósti á kmk@kmk.is.