— Árvakur/Kristinn Ingvarsson
Kvikmyndin Brúðguminn var frumsýnd í vikunni en hún er byggð á leikritinu Ívanov eftir Anton Tsjekhov. Leikritið var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á annan í jólum og er sami leikstjóri og sömu leikarar í kvikmyndinni og leikritinu. Margrét Vilhjálmsdóttir fer með eitt aðahlutverkanna.

Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur

hilduredda@24stundir.is

Kvikmyndin Brúðguminn eftir Baltasar Kormák var frumsýnd í Háskólabíói í vikunni og hefur hlotið mikið lof áhorfenda, en myndin er byggð á leikritinu Ívanov eftir Tsjekhov sem hefur jafnframt verið á fjölum Þjóðleikhússins frá 26. desember síðastliðnum. Sömu leikarar fara með burðarhlutverkin í myndinni og leikritinu og er Margrét Vilhjálmsdóttir í hópi þeirra. Hún fer með hlutverk fárveikrar eiginkonu aðalsöguhetjunnar, en í leikritinu, sem var skrifað í lok 19. aldar í Rússlandi, er hún með berkla og í kvikmyndinni, sem gerist í nútímanum í Flatey á Breiðafirði, er hún haldin geðhvarfasýki. „Aðalatriðið er reyndar ekki sjúkdómurinn sjálfur heldur hvaða áhrif hann hefur á samband hennar við eiginmanninn og umhverfið. Maðurinn hennar er með samviskubit yfir því að hugsa ekki nógu mikið um hana en gerir samt lítið í því. Í raun er hægt að hugsa um þetta í stóru samhengi; Við mannfólkið erum alltaf með samviskubit yfir sjúkdómum fólks í þriðja heiminum en gerum svo ekkert í því, nema kannski borga smápeninga í hjálparstarf og gleyma þessu svo um leið. Ég held að ef við náum að sjá okkur dálítið í Ívanov sé markmiðinu náð, hvort sem það er í leikhúsinu eða í bíómyndinni,“ segir hún.

Margrét segir verkið vera góða blöndu af tragík og kómík. „Þetta er eitt fyrsta verkið sem Tsjekhov skrifaði í þessum stíl og það besta við hann er að hann er ofboðslega mannlega þenkjandi og alltaf að velta fyrir sér heimspekilegum spurningum um okkur mannfólkið og hvað það er sem við erum að kljást við í lífinu og þó svo að leikritið sé meira en 100 ára gamalt á það alltaf við.“

En það er stór munur á því að setja upp verk í leikhúsi og að gera kvikmynd. „Við vinnum þetta mjög ólíkt, enda eru þetta raun tveir mjög ólíkir miðlar. Í myndinni er sagan færð í nútímann og gerist á Íslandi en leikritið er kannski meira í fljótandi tímarúmi ef svo má segja og þar er skírskotað til eldri tíma. Leikhúsið býður upp á ákveðið frelsi þannig að við getum verið með svífandi leikmynd og alls konar gervi og þóst drekka vodka. Í kvikmyndinni erum við hins vegar bundin við ákveðinn realisma og það hefur verið mjög fróðlegt að vinna þetta samtímis í þessum ólíku formum,“ segir Margrét og bætir því við að hún sé ekki í nokkrum vafa um að það að túlka sömu persónuna í leikriti og kvikmynd samtímis hafi alls ekki truflað. „Þvert á móti hefur það hjálpað mikið til, ekki síst fyrir leikhúsið af því að maður þarf oft góðan tíma til að kynnast persónunni sjálfri og byggja upp gott samband á milli persónanna. Þegar við tókum upp myndina urðu samskipti okkar mjög þétt og það skilaði sér mjög vel í leikhúsið,“ segir hún að lokum.