Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sith@mbl.is ! Við stóðum við glugga, ég og maður og kona, og horfðum á Esjuna. Yfir henni var blikandi ský og konan sagði vá og bað okkur að segja eitthvað skáldlegt.

Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur

sith@mbl.is

! Við stóðum við glugga, ég og maður og kona, og horfðum á Esjuna. Yfir henni var blikandi ský og konan sagði vá og bað okkur að segja eitthvað skáldlegt. Maðurinn sagði: Ég man ekki eitthvað um skýin, en það var stolið. Þá sagði ég: Glitský. Glitnisský. Þau horfðu á mig og ég varð völvuleg, sagði þess ekki langt að bíða að stórfyrirtæki færu að eigna sér vinsæl fyrirbrigði, skýin, alla skapaða hluti. Eða hvernig fór ekki með Reykjavíkurmaraþonið, spurði ég, heitir það ekki núna Glitnismaraþon? Maðurinn glaðvaknaði: Segðu, og punktarnir! Já, bráðum verður okkur skipað að kalla alla punkta Glitnispunkta, sagði ég og þóttist lesa: Kjartan laut höfði, komma, hann brynnti þó ekki músum, Glitnispunktur.

Konan horfði á okkur eins og við værum skrýtin.

En þetta var alveg rétt hjá okkur manninum, allt er í þessa átt. Efsta deild karla í knattspyrnu heitir ekki lengur efsta deild, hún heitir Landsbankadeildin því bankinn borgar en vill auglýsingu í staðinn og besta auglýsingin er að pressa á fólk um að taka sér firmaheitið í munn. Fréttaritarar þylja líka upp úrslit í Iceland Express-deildinni í körfuknattleik, ég geri ráð fyrir að það sé úrvalsdeild, aðaldeild, en engu skiptir hvort vörumerkið er rammíslenskt eða alls ekki, það ratar jafn auðveldlega inn í fréttatímana og allir eru himinsælir. Og Shell-mótið í Eyjum og Esso-mótið á Akureyri hafa séð til þess um árabil að börn klifi á bensínvörumerkjum í afmælum, á æfingum, þetta eru skemmtileg mót og í umræðunni allt sumarið. Að fólk taki sér vörumerki sem oftast í munn gerir þau að heimilisvinum, sjálfkrafa vali, gildið er talað upp.

En það er óþarfi að múðra um þetta. Búið og gert. Ekki fara menn að snúa við og taka upp hallærisleg heiti eins og fjórðungsmót. Frekar er líklegt að þeir gangi áfram og taki að nefna sjálf liðin eftir helstu hollvinum. Í ítalska körfuboltanum er það viðtekið, þar leika lið eins og Benetton Treviso og Armani Jeans Milano. Það er svipað og Dún & fiður Skallagrímur og Mjólka Höttur ættust við í, tjah, Vodafone-höll, og Sko Grindavík drægist á móti KFC KR í bikarkeppninni í knattspyrnu, sem heitir reyndar ekki bikarkeppnin heldur VISA-bikarinn. Ég er ekki að gera grín. Svona fer þetta. Er þá nokkuð fjarstæðukennt að glitský á himni verði glitnisský?

Það er annars merkilegt að þróun þessi skuli vera hvað skýrust í íþróttum, í ljósi þess að skipuleg iðkun þeirra var lengi vel ekki í þágu neins nema almennings í sveitarfélögunum, hún var samhugsun, non-profit. En stuðningur kröftugra fyrirtækja er tímanna tákn, enginn virðist lengur geta rekið andlega eða líkamlega næringu/menningu nema með kostun. Sem er fínt. Það er bara athyglisvert að skoða þar virkni tungumálsins; yfirtöku þess, lán, smit.

Ég man þegar Ríkissjónvarpið fór að kalla sig Sjónvarpið og keppinautarnir pirruðust. Þeir sögðu að RÚV væri að reyna að slá eign sinni á samheiti í tungumálinu, það ætti engan einkarétt á orðinu sjónvarp, hvað þá útvarp. Síðan hafa margir stytt sér einmitt þá leið: valið fyrirtækjum sínum heiti úr röð algengustu orða til að læða auglýsingum inn í hversdagslega orðræðu – og öfugt. Þannig hefur Síminn eignað sér orðin sími og frelsi, hikorðið sko er í boði annars símafyrirtækis og sama hefur komið fyrir orð eins og mamma, já og mest. Þau hafa fengið forstjóra.

Tungumálið er töfrateppi, trójuhestur, á því hefur markaðurinn áttað sig og kemst langt. Yfir því þarf ekki endilega að vera fúll. Fínt bara að halda meðvitund og muna að ef táknmynd hefur skyndilega tvöfalt táknmið, er annað tveggja mjög líklega á hlutabréfamarkaði og fjöldi fólks hefur beinan hagnað af vinsældum