Óhapp Í Óhappi Bjarna Jónssonar í Þjóðleikhúsinu var af ferskleika, vitsmunalegri nálgun og langt frá meinlausri gamansemi tekist á við samtímann og heimskupör hans, segir Sveinn.
Óhapp Í Óhappi Bjarna Jónssonar í Þjóðleikhúsinu var af ferskleika, vitsmunalegri nálgun og langt frá meinlausri gamansemi tekist á við samtímann og heimskupör hans, segir Sveinn.
Eftir Svein Einarsson Morgunblaðið hefur farið þess á leit við mig að skrifa svolitlar hugleiðingar nú upp úr áramótum um leiklistina á Íslandi.

Eftir Svein Einarsson

Morgunblaðið hefur farið þess á leit við mig að skrifa svolitlar hugleiðingar nú upp úr áramótum um leiklistina á Íslandi. Ég hef að vísu lengi veigrað mér við að skrifa mikið um félaga mína á líðandi stund, en ætla nú að láta slag standa og lýsa einhverjum af skoðunum mínum og hugmyndum fyrir framtíðina.

Gagnrýnendur Morgunblaðsins voru yfirleitt ánægðir með listrænan afrakstur ársins. Og víst er margt harla blómlegt, einkum stendur tónlistin vel, bæði í sköpun og flutningi og stöðugir straumur ungs hæfileikafólks kemur fram. Margt er og að gerast t.d. í myndlist og kvikmyndagerð. Að glöggva sig á bókaflóðinu er oft gott að gera svosem að einu ári liðnu, þegar auglýsingarnar hafa hjaðnað. Hvað úttektirnar snertir má að vísu setja spurningarmerki við í hvaða mæli má tileinka sér t.d. heimsóknir Helga Tómassonar, Hvorostovskijs og Pinu Bausch rétt eins og þau væru sprottin úr okkar sköpunarsmiðju. Einna dekkstan tón kvað við þegar leiklistin var metin og trúlega er það rétt sem einn gagnrýnandi Morgunblaðsins kvað upp úr um nýlega, að leiksýningar væru ekki jafnmiðlægar í menningarumræðunni og þær voru í marga áratugi. Að nokkru eiga fjölmiðlar sök á þessu sem eyða miklu púðri í sjónvarpsfólk og ástalíf Hollywood-leikara, en segja sjaldan t.d. frá erlendum menningarviðburðum til fróðleiks eða viðmiðunar. Sumum myndi finnast að þarna sé verið að ala ungu kynslóðina upp í hégóma.

Öldudalur

Það er í rauninni dálítið dapurlegt að þurfa að viðurkenna að finnast leiklistin hjá okkur vera í svolitlum öldudal og hafa verið svo í nokkur ár. Þetta kann að hljóma sem þversögn við það, að aðsókn hefur almennt verið þannig að ekki hefur verið ástæða til að kvarta. En á hitt ber stöðugt að minna, að leikhús er ekki rekið til þess að fylla það fyrst og fremst hvað sem í boði er, heldur er tilgangur leikhúss að búa til góða leiklist. Og enginn annar.

Reyndar veikir það trúlega ofangreinda yfirlýsingu, að mér hefur ekki tekist, þrátt fyrir góðan vilja, að sjá allt sem í boði hefur verið. Mest er þar um að kenna þeirri áráttu, að halda sýningar fyrst og fremst um helgar, þannig að þó að maður sé allur af vilja gerður, er illmögulegt af þeim sökum að komast yfir að sjá allar þær sýningar, sem maður kysi. Og ég verð einneginn að játa, að aldrei þessu vant komst ég af óviðráðanlegum orsökum ekki til að sjá allar sýningar Leikfélags Akureyrar, þar sem virðist þó vera kröftug leikstarfsemi um þessar mundir, og ósanngjarnt að geta ekki sýninga nyrðra.

Haustið hér syðra hefur verið fremur viðburðalítið. Mér hugnaðist þó ágætlega skýrlega hugsuð sýning Vesturports og Þjóðleikhússins á Hamskiptunum , þó að ég saknaði óræði Kafka, hættunnar, sársaukans og dramatískra átaka á ferlinu. Fjölskyldan streittist ekki nógu lengi á móti hinum nýju aðstæðum. En Gísli Örn Garðarsson er einstaklega fimur leikari og þegar kominn á flug sem leikstjóri; nokkur afar snjöll atriði í Woyzzeck voru til vitnis um það meðal annars. Og leikmyndin í Hamskiptunum var afbragð, en leikstíllinn var nokkuð á reiki og sumir léku of raunsæislega, aðrir of skrípalega. Þá er það lofsverð viðleitni hjá leikhúsunum að kynna erlenda nútímaleikritun, þó að hún standi í myndvæðingu nútímans ekki mjög hátt um þessar mundir. Til dæmis var Kona áður eftir Schimmelpfennig byggt á snjallri hugmynd sem skemmti manni fram eftir, en er á leið missti höfundur fersk tök á viðfangsefni sínu. Þar vakti Edda Arnljótsdóttir athygli fyrir túlkun sína, hún er alltaf að bæta við sig, svo og ungur leikari, Vignir Rafn Valþórsson. Barnaleikritin tvö Gosi og Skilaboðaskjóðan voru í mjög frambærilegum og umfram allt skemmtilegum sýningum þó að misvel væri leikið; Selma Björnsdóttir kom semsé á óvart í frumraun sinni sem leikstjóri. Og í Skilaboðaskjóðunni fóru nokkrir leikarar á kostum, eins og Þórunn Lárusdóttir; reyndar í Gosa líka, eins og ný leikkona, Aðalbjörg Árnadóttir, sem iðaði af leikgleði. En heldur hvimleið er sú tilhneiging að nota hljóðnema við allt, ekki bara sönginn, heldur og talatriði sem missa við það mikið af blæbrigðum. Og í Skilaboðaskjóðunni til dæmis voru nokkur söng- og dansatriði út úr stíl í amerískum söngleikjaútfærslum en ekki í anda þeirra ævintýra sem virtist eiga að vitna þar til. Annars er gaman að ná til ungra áhorfenda öðruvísi en í umbúðamiklum sýningum. Til marks um það var lítil notaleg sýning á Gott kvöld í „Kúlunni“, þar sem orðfimi og hugvitsamleg notkun leikbrúða, þar á meðal í anda skuggaleikhússins, var í fyrirrúmi. Hvernig væri að notfæra sér ritfimi Þórarins Eldjárns við slíkar sýningar?

Leikhúsin hafa verið rög við sígild verk heimsbókmenntanna (nema leikhópurinn Fjalakötturinn með Heddu Gabler ). Þjóðleikhúsinu mistókst við Bakkynjurnar í fyrra, en gerði nú heldur betur bragarbót. Ivanov er að vísu ekki í hópi merkustu verka leikbókmennta, þó að það sé eftir sjálfan Tjekhov; mörgum hefur þótt það langdregið. En Baltasar Kormáki tekst að vekja áhuga manns á þessu leiðindafólki og halda manni við efnið með bráðsnjöllum sviðslausnum; það er helst í samtali þeirra Ivanovs og ungu stúlkunnar nálægt lokum leiksins og í eintali hans sem slaknar á áhuganum. Og þó að enginn sé samóvarinn fæ ég ekki betur séð en Baltasar takist vel að lýsa geðslagi hinnar ógæfusömu rússnesku þjóðar með sveiflum sínum milli gleði og gráts. Grétar Reynisson bregst ekki frekar en fyrri daginn, en textinn er hins vegar nokkuð veikur hlekkur, svolítið stíllaus og ekki laus við þýðingarkeim. En leikarar eins og Jóhann Sigurðarson, Þröstur Leó Gunnarsson og Ólafur Darri Ólafsson fara beinlínis á kostum, sem og líka Ólafía Hrönn, Ólafur Egill og Margrét, einkum framan af. Baltasar er nefnilega afbragðs persónuleikstjóri. Hetjan Ivanov er með afbrigðum leiðinleg persóna, andhetja, en reyndar geta andhetjur verið skemmtilegar, svo sem kunnugt er. Og Hilmir Snær Guðnason er sem kunnugt er afburða leikari og rær honum í höfn. En maður gat ekki varist því að velta fyrir sér, hversu margir í þessu liði séu fastráðnir í leikhópi Þjóðleikhússins um þessar mundir. Flest þjóðleikhús hafa talið sig þurfa að hafa leikhóp sem hægt er að ganga að vísum svo að hægt sé að miða verkefnaval við listræna getu þeirra sem þar starfa.

Þetta er sem sagt hörkusýning. Leiðinlegt leikrit um leiðinlegt fólk verður að skemmtilegri sýningu um leiðinlegt fólk. Baltasar er kominn langt frá ófullburða aðför sinni að Hamlet og Draumi á Jónsmessunótt forðum. Í dag er hann í hópi fremstu listamanna sinnar kynslóðar á Íslandi, jafnt á leiksviði sem í kvikmyndum. Spennandi listamaður og til alls góðs vís. En val hans á viðfangsefnum gefur tilefni til heilabrota. Hamlet var dáðlaus, strákurinn í 101 Reykjavík ónytjungur, Pétur Gautur skíthæll, önugur Erlendur í Mýrinni ekki beinlínis glansmynd af lögreglumanni (sem ég harma þó ekki) og nú þessi Ivanov fullur sjálfsfyrirlitningar og sjálfsvorkunnar. Hvað er hann að segja okkur?

Ég hef ekki séð Jesú ofurstjörnu , en þessir söngleikir nútímans virðast hafa tekið við af heimsbókmenntunum; á þá er látið reyna með nokkurra ára bili. Mig langar í nýsköpun þar; söngleikir Andrews Loyd Webbers eru að vísu með þessi afbragðs lög, en söguþráðurinn er venjulega í allra þynnsta lagi. Og þeir þola ekki að maður sjái þá þrisvar-fjórum sinnum, eins og ég hef gert við Ofurstjörnuna ; það þolir hins vegar Fást . Ég læt sem sagt rokk-tónleikana bíða; það eru svo margir tónleikarnir.

Þá hef ég verið að rifja upp hvað mér var minnisstæðast frá því í vor sem leið. Það er nú einu sinni svo, að manni gleymist fyrr það sem lakara er en það sem gleður mann. Ást hef ég ekki enn séð og get því ekki neitt um það sagt, en er svolítið hræddur við það þegar ungt fólk er að fjalla um mína kynslóð. Það gæti dottið í tilfinningasamar klisjur. En því miður verð ég að viðurkenna, að mér fannst Leg yfirborðslegt og þreytandi umbúðaleikhús. Hafi það átt að vera ádeila, fannst mér það snúast upp í andhverfu sína. Þetta kom á óvart, af því að sýning Nemendaleikhússins með sömu aðstandendum var sterk og gaf fyrirheit. Hjónabandsglæpir hugnuðust ekki öllum, en ég hafði gaman af þeim, enda góðir leikendur. En Eric-Emmanuel Schmidt hefur skrifað miklu sterkari leiktexta. Og leikritið kanadíska um vandamál Mið-Austurlanda var einfaldlega ekki nógu vel skrifað. Eitt af „samstarfsverkefnum“ Borgarleikhússins var hins vegar sérlega vel lukkað. Það var Killer Joe (sem hefði átt að heita Jói morð ). Þar var dúsínvörutexta lyft upp á hærra plan með skemmtilega stílfærðri og agaðri nálgun, af frumleika sem átti ekkert skylt við þá stæla sem menn ímynda sér stundum að séu frumleiki. Sennilega besta sýning leikársins í fyrra og Stefáni Baldurssyni til sóma.

Það var afar gaman að aftur skyldi látið reyna á Dag vonar eftir Birgi Sigurðsson og að komast að því að leikritið heldur sínu dramatíska lífi og hefur veðrast svona dæmalaust vel. Sýningin fannst mér þó standa allmjög að baki gömlu sýningunni eins og hún er í minningu minni. Glíma bræðranna var tilfinningaleg en ekki vitsmunaleg, sem hún þarf líka að vera, og sú ágæta leikkona, Sigrún Edda Björnsdóttir, var glæsileg, á besta aldri og full kynþokka í hlutverki útslitinnar konu, „á síðasta snúningi“ ef svo má að orði komast. Guðrún Gísladóttir togaði út úr sér orð dótturinnar forðum með þeim sársauka, að varð að skáldskap, og var minnisstætt. Og það leysti drengina úr læðingi, ekki átökin við móðurina. En nauðgunin var vel leyst núna og blessunarlega laus við allt raunsæi. Það er gaman hvað þessi sýning hefur gengið vel, því að hún hefur þó kosti, og nú þarf að láta reyna á fleiri leikrit frá „íslenska leikritunarvorinu“ á sjöunda og áttunda áratugnum. Tilraunin með Dómínó Jökuls um árið gafst til dæmis vel. Mér skilst að Stundarfriður eigi að fá annað tækifæri. Hvað um Dansleik eða Þrettándu krossferðina hans Odds Björnssonar?

Leikhúsin hafa ennfremur til margra ára vanrækt þau fáu íslensku „sígildu“ leikverk sem við eigum; það er menningarleg skylda að láta reyna á þau fyrir hverja nýja kynslóð. En þau alvarlegu mál væru reyndar efni í sérstaka grein. Og ekki er lögð nóg markviss áhersla á nýsköpun í leikritun. Bullleikritið í Borgarleikhúsinu var að sönnu nógu skemmtilegt framan af, enda flinkir leikarar á ferð, en snerist upp í áminningu um að ýta ekki höfundinum og orðinu endanlega út úr leikhúsinu. Því að höfunda er sem fyrr þörf. Af þeim sögum var það sérlega gleðilegt að sjá Óhapp Bjarna Jónssonar í Þjóðleikhúsinu, þar var af ferskleika, vitsmunalegri nálgun og langt frá meinlausri gamansemi tekist á við samtímann og heimskupör hans. Ég held að þessi sýning, sem öll var vel gerð, sé sú sem mér finnist standa upp úr í haust. Önnur sýning sem hné í svipaða átt, Hér og nú , olli hins vegar vonbrigðum og varð þreytandi. Skopfærsla er viðsjárskepna og manni getur orðið á að skjóta sig í fótinn. Hér vantaði einfaldlega alvöru höfund. Mér varð hugsað til annarrar sýningar þar sem svipuð aðferð var notuð og klippt út úr pressunni. Hún var í Kaupmannahöfn á útibúi Konunglega leikhússins, fjallaði um útlaga í meginstraumi samfélagsins og að henni stóð ungur íslenskur leikstjóri, Egill Heiðar Anton Pálsson. Sú sýning varð grípandi og boðskapur hennar situr enn í manni.

En svo minnst sé á fleiri höfunda má nefna Jón Atla Jónasson sem einnig lét að sér kveða á árinu. Hann er enn að þreifa fyrir sér, „leita að sjálfum sér“, eins og það var einu sinni kallað, leitar einnig ótroðinna slóða í glímu sinni við samvisku heimsins. Og óþarfi að gleyma Sigtryggi Magnasyni. Stofuleikur hans var allrar athygli verður, en næst eiga leikhúsin að bjóða honum í stofu hjá sér.

Hins vegar var boðið upp á hreina látbragðssýningu og í sjálfu sér er það skemmtileg tilbreyting í flóruna. Þar var að verki Íslendingurinn Kristján Ingimarsson sem starfar í Danmörku, ótrúlega fimur látbragðsleikari, og margar lausnir verksins voru skemmtilega myndrænar og leikrænar. En byggingu verksins og heildarhugsun var ábótavant.

Öldudalur? Að mörgu leyti já, þegar litið er til tveggja –þriggja síðustu ára. Að vísu hefur Þjóðleikhúsið talsvert rétt úr kútnum nú í haust, en sjálfstæðu leikhúsin hafa ekki látið nógu mikið að sér kveða utan stofnanaleikhúsanna þar sem þau hafa verið blóðgjöf. Þó má nefna þar nokkrar sýningar og mér dettur þá fyrst í hug Draumalandið sem varð að miklu áleitnari leiksýningu en maður gat vænst við lestur bókarinnar. Og þó að aðferðin minnti svolítið á framsækið leikhús á sjöunda áratugnum, þá varð sýningin harla ögrandi þegar Hafnfirðingar voru að kjósa um álver. En hvernig er það, er Hafnarfjarðarleikhúsið sjálft dautt?

Leikfélag Reykjavíkur og Borgarleikhúsið þurfa bersýnilega að taka sér listrænt tak. Og það þarf að hreinsa upp þær aðsóknartölur sem gefnar eru út á þeim bæ. Fyrir hverju stendur Leikfélag Reykjavíkur sjálft, hvað er samvinnuverkefni við sjálfstæðu leikhópana (og þá má ekki tvítelja aðsóknina; sjálfstæðu leikhúsin telja nefnilega einnig sína sauði, þó að samvinnuverkefni kallist) og loks hverjir koma í húsið vegna annarrar starfsemi? Í blaðagrein fyrir nokkrum dögum upplýsti Aino Freyja Järvelä að á síðasta leikári hefðu 49 þúsund áhorfendur sótt sýningar sjálfstæðu leikhúsanna (eða samstarfsverkefnin ef menn kjósa að kalla það svo) í Borgarleikhúsinu. Nú er það á allra vitorði, að þeir sem koma í húsið á öðrum forsendum en til að sækja leiksýningar skipta tugum þúsunda. Því vaknar auðvitað sú spurning hversu margir sækja þær sýningar sem telja verður að séu til komnar fyrir frumkvæði Leikfélags Reykjavíkur sjálfs (sem eru auk Dags vonar m.a. tveir farsar, Viltu finna milljón og Lík í óskilum ). Og ennfremur hversu mikið af opinberu fé til LR fer í þær sýningar og hversu mikið kemur sjálfstæðu leikhúsunum raunverulega til góða og þá í hvaða formi. Því að eftir því sem Järvelä fullyrðir, fær öll sú starfsemi sem SL stendur fyrir aðeins fimm prósent af því fé sem varið er opinberlega til leikstarfsemi á Íslandi.

Önnur verkefni leikhúsanna

Burtséð frá að lýst sé eftir betra og fjölbreyttara verkefnavali almennt, blasa við ýmis önnur verkefni fyrir íslenskt leikhús. Það er til dæmis löngu orðið tímabært að stofna landshlutaleikhús, til dæmis á Ísafirði og Egilsstöðum eða Seyðisfirði og svo þar sem best henta þykir á Suðurlandi; þar gætu leikhópar fengið til þess fé af þeim lið sem ætlaður er sjálfstæðu leikhúsunum. En sá liður þyrfti að sama skapi og gott betur að eflast að efnum samanber það sem að ofan segir. Borið saman við nágrannalöndin erum við miklir eftirbátar í að styrkja góugróðurinn.

Í annan stað er löngu orðið tímabært að finna Leikminjasafni Íslands sómasamlegan samastað. Starfsemin er þegar orðin það öflug og til dæmis nú, þegar loks verður efld kennsla í skólunum í því listræna sem ekki er bara bundið bókstafnum og þekkingarforðanum, þá má vísa til þess hversu öflugt kennslutæki slík söfn hafa reynst í nágrannalöndunum. Heimsóknir skólabarna á sýningar Leikminjasafnsins hafa þegar sýnt, að hér er sami jarðvegur.

Í þriðja stað er einnig löngu orðið tímabært að koma upp kennslustóli í Háskóla Íslands í leikhúsfræðum. Háskóla Íslands er hinn eini af helstu háskólum Norðurlanda sem ekki hefur tekið á sig rögg í þeim efnum. Þetta hefur orðið til þess, að það sem snýr að leiklistarsögu hefur orðið útundan í akademískri umræðu og ekki síður í fjölmiðlum. Bóka á þeim vettvangi er varla getið í hringiðu auglýsingasamfélagsins. Og í bókmenntaumræðu er leikritun sniðgengin.

En umfram allt: Okkur þyrstir í leikrit frá öllum heimsins hornum sem sýna þann breytta heim sem síðustu ár hafa leitt yfir okkur. Og að flytja skáldskapinn aftur inn í leikhúsin! Og að vanda betur til þeirra verka sem eiga að grípa inni í kviku dagsins!

Höfundur er leikhúsfræðingur.