Vladímír Pútín
Vladímír Pútín
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is STERK staða Rússa á evrópska orkumarkaðnum efldist enn frekar í gær eftir samninga um sölu á gasi til Búlgaríu að verðmæti hundruð milljarða íslenskra króna.

Eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

STERK staða Rússa á evrópska orkumarkaðnum efldist enn frekar í gær eftir samninga um sölu á gasi til Búlgaríu að verðmæti hundruð milljarða íslenskra króna.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti undirritaði samningana í tveggja daga opinberri heimsókn sinni til Búlgaríu, ásamt Georgy Parvanov, forseta landsins, og fól sá stærsti í sér lagningu 900 km gasleiðslu sem mun liggja yfir Svartahafið og síðan skiptast í tvennt: Annar hlutinn mun liggja til Austurríkis en hinn til Grikklands og þaðan vestur til Ítalíu og er verðmæti samningsins áætlað um 950 milljarðar króna.

Evrópusambandið undirbýr lagningu leiðslunnar Nabucco, sem á að liggja frá Mið-Asíu til Evrópu og ætlað er að draga úr þörfinni fyrir innflutt gas frá Rússlandi, og þykja samningarnir nú vega á móti þeirri orkustefnu.

Miklar hækkanir í Evrópu

Miklar verðhækkanir á gasi í Bretlandi héldu áfram í gær þegar British Gas varð þriðja orkufyrirtækið í landinu til að hækka gasverð á árinu. Hækkunin nemur 15% og nær til yfir 13 milljóna viðskiptavina.

Fyrirtækið lækkaði verð á gasi til heimila um 20% í mars í fyrra, skref sem hefur nú verið tekið til baka.

Þá hefur franska orkufyrirtækið EDF hækkað verðið á gasi um 12,9% til 5,5 milljóna viðskiptavina í suðurhluta Bretlands, þ.m.t. í Lundúnum.

Er áætlað að meðalorkureikningur viðskiptavina EDF muni fara yfir 128 þús. kr. á ári eftir hækkunina og er óttast að hinir tekjuminni muni freistast til að draga úr hitun.

Búast sérfræðingar við að orkufyrirtækin E.On, Scottish & Southern Energy og Scottish Power muni öll hækka verðskrár sínar.