Opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 14–17. Sýningin stendur til 24.febrúar. Aðgangur ókeypis

Það mæta manni nokkur undarleg strýtulöguð svört sandfjöll með rauðar seiðandi eldtungur í toppnum þegar gengið er inn í 101 gallerí á Hverfisgötu. Eldfjöllin eru hluti af sýningu Brynhildar Þorgeirsdóttur sem þar sýnir afrakstur náttúruhamfara síðasta árs á vinnustofunni. Brynhildur hefur lýst sjálfri sér sem styttugerðarkonu og þannig komið í veg fyrir að fjallað yrði um verk hennar á einhverjum hugmyndafræðilegum forsendum sem þau passa ekki inn í eða standa ekki undir.

Með yfirlýsingu sem þessari þá dregur Brynhildur úr hátíðleika listarinnar og forðast að gefa verkunum ætlaða aukamerkingu en beinir athyglinni að því sem þau raunverulega eru. Ímyndaðar og mikið stílfærðar náttúrumyndir sem upphefja náttúruöflin á einfaldan og ævintýralegan hátt. Náttúran er lífguð og persónugerð og jafnvel kyngreind á gáskafullan hátt svo minnir stundum á leikmuni eða fígúrur úr Harry Potter-myndum en stundum minnir útkoman á fágaða fagurfræði módernismans.

Þetta sambland af hinu leikræna og hinu fágaða ásamt náttúrulegum yfirborðsefnum á borð við sand, leir og gler virkar svolítið undarlegt á köflum. Vitneskjan um hin raunverulegu náttúruöfl sem liggja að baki gerð verkanna gefa þeim aukið gildi. Hitinn sem þurfti til að bræða glerið er heitari en sjálfur eldurinn sem hann stendur fyrir, og storknunarferlið endurspeglar aðferðir náttúrunnar sem umbreytir föstu efni í fljótandi og öfugt. Sköpunarferli verkanna allt frá því að burðast með mismunandi sand frá ýmsum landshornum til þess að endurskapa yfirborð náttúru yfir í yfirborð verkanna krefst óþrjótandi sköpunargleði og eljusemi sem er einskonar náttúruafl innbyggt í listamanninn. Eldsprettur og logsugur, storknuð og að því er virðist forsöguleg kvikindi, tákngera slíkan kraft á ljóðrænan hátt.

Þóra Þórisdóttir