Um helmingur farsíma á Bandaríkjamarkaði inniheldur nikkel og geta þeir valdið notendum nikkelofnæmi með tilheyrandi kláða, exemi og óþægindum.

Eftir Viggó I. Jónasson

viggo@24stundir.is

Samkvæmt rannsóknum dr. Lionels Bercovitch, prófessors í húðsjúkdómafræðum, inniheldur helmingur vinsælustu farsímanna á Bandaríkjamarkaði nikkel. Nikkel getur valdið heiftarlegum ofnæmisviðbrögðum.

Í janúarhefti Canadian Medical Association Journal birtist grein dr. Bercovitch þar sem hann greinir frá sjúkrasögu 18 ára unglings. Drengurinn hafði leðurkennd útbrot víða um líkamann, meðal annars á andliti og kviði, og eftir rannsóknir var hann greindur með ofnæmi fyrir nikkel.

Nokia-símar nikkelfríir

Ofnæmisvaldurinn reyndist vera farsíminn hans en hátt magn nikkels var í Samsung-síma drengsins. Þetta er ekki eina tilfellið þar sem hægt er að rekja nikkelofnæmi til farsíma en greint hefur verið frá slíkum tilfellum meðal annars í Japan, Kóreu, Austurríki og Ítalíu.

Bercovitch prófaði 22 vinsælustu farsímana sem fást í Bandaríkjunum til að sjá hversu hátt hlutfall þeirra innhéldi nikkel. Um helmingur þeirra farsíma sem prófaðir voru reyndist innihalda nikkel.

Valmyndartakkarnir á bæði Samsung og Sony Ericsson innihéldu nikkel sem og skrautmerkingar á Motorola-farsímunum. Prófaðar voru fimm mismunandi gerðir af Nokia-símum en enginn þeirra reyndist innihalda nikkel.

Kemur ekkert á óvart

„Þetta er ekki lífshættulegt en getur verið alveg feikimikið vandamál,“ segir Davíð Gíslason, yfirlæknir ofnæmisdeildar Landspítalans í Fossvogi. Davíð er ekki kunnugt um sambærileg tilfelli hér á landi en hann segir að ef símarnir innihalda á annað borð nikkel þá komi ofnæmisviðbrögð vegna farsíma lítið á óvart. „Það liggur í augum uppi ef nikkel er í ytra byrði símans.“
Í hnotskurn
Á milli 15-20 prósent kvenna á Íslandi eru með nikkelofnæmi. Algengustu sökudólgarnir fyrir nikkelofnæmi eru skartgripir sem innihalda nikkel, svo sem hálsmen og eyrnalokkar.