Flytur út Andri Freyr íhugar að sækja um í kvikmyndaskóla.
Flytur út Andri Freyr íhugar að sækja um í kvikmyndaskóla.
„Hugmyndin er að drulla sér héðan. Ég er laus og liðugur og það er ekkert sem heldur mér hérna,“ segir hinn ástkæri útvarpsmaður Andri Freyr Viðarsson. Útvarpsferill Andra Freys er jafn glæsilegur og hann er þyrnum stráður.

„Hugmyndin er að drulla sér héðan. Ég er laus og liðugur og það er ekkert sem heldur mér hérna,“ segir hinn ástkæri útvarpsmaður Andri Freyr Viðarsson.

Útvarpsferill Andra Freys er jafn glæsilegur og hann er þyrnum stráður. Útvarpsþáttur hans og Búa Bendtsen hefur verið stjórn- og bakborði þriggja útvarpsstöðva sem hafa sokkið í ólgusjó fjölmiðlaheimsins – nú síðast Reykjavík FM. Andri þreifar því fyrir sér á nýjum vettvangi og íhugar að sækja um í kvikmyndaskóla í Danmörku. „Það er hugmynd. Ég er ekki búinn að sækja um, en er að velta þessu fyrir mér.“

Til í Reykjavík síðdegis

Andri segist ekki hafa orðið var við að aðrar útvarpstöðvar hafi sóst eftir kröftum hans. Hann hefði þó ekkert á móti því að ganga til liðs við gullbarkana í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

„Það er náttúrulega draumurinn því þar gera menn ekkert annað en að segja: Við skulum opna fyrir símann. Það er mjög þægilegt, hlustendur sjá bara um þetta,“ segir Andri og hlær. „Svo spyrja þeir alltaf: Hvað er verið að ræða á kaffistofum og í heitum pottum? Algjörir snillingar.“

Rás 2 heillar einnig Andra og þá sérstaklega tiltekinn útvarpsmaður frá Akureyri. „Það er draumur að fá að sitja á móti Gesti Einari,“ segir hann. „Ég held að þeir átti sig ekki á því á Rás 2 hvað það yrði gott mix. Hann fyrir norðan og ég í bænum. Við félagarnir að ræða hvað er í blöðunum og svona. Það væri geggjað.“ atli@24stundir.is