Leikstjórandinn Snorri Steinn Guðjónsson og félagar verða í sviðsljósinu.
Leikstjórandinn Snorri Steinn Guðjónsson og félagar verða í sviðsljósinu. — Morgunblaðið/Günter Schröder
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„SLÓVAKAR eru með hættulegt lið og ef við leikum ekki betur en gegn Svíum þá lendum við í vandræðum. Það er alveg ljóst,“ segir Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari í handknattleik, um væntanlega mótherja íslenska landsliðsins á Evrópumeistaramótinu í dag, landslið Slóvaka.

Eftir Ívar Benediktsson í Þrándheimi

iben@mbl.is

„Ég fór yfir leik Slóvaka og Frakka í morgun og þar kemur fram að Slóvakar léku mjög vel gegn Frökkum þótt greinilegt væri að Frakkar gengu ekki til leiks með réttu hugarfari, þeir vanmátu Slóvakana.

Slóvakar leika sinn leik, varnarleikurinn er sterkur og markvarslan er góð. Hraðaupphlaupin eru vel útfærð og sóknarleikurinn var spilaður af skynsemi og yfirvegun. Menn bíða eftir sínu færum og leyfa boltanum að ganga vel á milli sín,“ segir Alfreð sem sagðist í gær eiga eftir að kryfja viðureign Frakka og Slóvaka enn frekar til mergjar. Í þeim voru Frakkar heppnir að ná sigri eftir að hafa lent í kröppum dansi gegn viljugum leikmönnum Slóvaka sem greinilega leggja líf og sál í hvern leik.

Verðum að bæta margt

„Við verðum að bæta margt í okkar leik áður en við mætum Slóvökum, það er alveg ljóst. Skyttur Slóvaka eru góðar og við verðum að sækja þær talsvert út á völlinn. Þar af leiðandi verður varnarleikur okkar að vera góður til þess að við lendum ekki í vandræðum.“

Eru mjög vel undirbúnir

Alfreð segir alveg ljóst að Slóvakar hafa á að skipa hættulegu liði sem leggur hjarta sitt og sál í leikinn líkt og fleiri lið á Evrópumeistaramótinu, s.s. Svartfellingar, sem gerðu jafntefli við Hvít-Rússa, sem stóðu lengi vel í Þjóðverjum og Ungverjar, sem tóku Spánverja í kennslustund.

„Þessi lið hafa á að skipa leikmönnum sem leika ekki með fremstu liðum Evrópu og hafa því haft góðan tíma til undirbúnings, þau hafa kannski verið við æfingar og keppni í tvo mánuði. Síðan koma þau hingað á EM og leika virkilega vel, þau eru samæfð og sterk, tilbúin að sanna sig.

Á sama tíma eru sum önnur lið að gefa sér viku til tíu daga til undirbúnings og skilja síðan ekkert í að árangurinn lætur á sér standa, má þar nefna Spánverja og okkur, svo dæmi sé tekið.“

Engin ástæða til að pína Ólaf

„Auðvitað er slæmt að missa Ólaf, en auðvitað er heldur engin ástæða til þess að pína hann áfram. Ólafur hefur ekki leikið eins og hann getur best upp á síðkastið og þá má ef til vill spyrja sig að því hvort það sé ekki rétt að gefa öðrum tækifæri og leyfa Ólafi að jafna sig. En fyrst og fremst er engin ástæða til þess að pína Ólaf áfram eins staðan er á honum um þessar mundir,“ segir Alfreð spurður og væntanlega fjarveru Ólafs í tveimur næstu leikjum á EM. Eins og greint er frá á forsíðu þá glímir Ólafur við slæma tognun í aftanverðu hægra læri.

Slóvakar voru með á EM 2006 í Sviss og töpuðu þá þremur leikjum.

Erum ekki í liðinu til að horfa á Ólaf

Eftir Ívar Benediktsson í Þrándheimi

iben@mbl.is

„ÉG og Einar [Hólmgeirsson] fáum aukna ábygð núna og verðum að vera klárir í að axla hana. Við erum í landsliðinu til þess að spila, ekki í þeim tilgangi að horfa á Ólaf Stefánsson,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, landsliðsmaður í handknattleik, sem fær stærra hlutverk þegar ljóst er að Ólafur Stefánsson leikur ekki næstu tvo landsleiki Íslands á Evrópumeistaramótinu.

Ásgeir Örn verður strax í eldlínunni í dag þegar leikið verður við Slóvaka. „Það kemur maður í manns stað og nú verður það okkar að taka þennan slag og ég veit að við erum klárir í þann slag enda kemur ekkert annað til greina en sigur á móti Slóvökum.“

Getum ekki leikið verr en gegn Svíum

Ásgeir segist ekki hafa áhyggjur af því að menn endurtaki leikinn við Svía þegar leikið verður við Slóvaka í dag. „Nú er leikurinn við Svía að baki, menn hafa sett hann á bak sig og eru staðráðnir að gera betur. Að minnsta kosti er alveg ljóst að við getum ekki leikið verr en við gerðum á móti Svíum. Það var alveg skelfilegur leikur.

Það eru margir leikir eftir hjá okkur í mótinu, það er langt. Þetta er ekki nein úrslitakeppni. Nú verðum við að sýna hvað í okkur býr,“ segir Ásgeir og fullyrðir að íslenska landsliðið sé betra en Slóvakar.

„Við þurfum bara að sýna fram á það í eitt skipti fyrir öll og ég trúi því að það takist,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson.