Lóan „Sýning Steingríms ber hinn bjartsýna titil „Lóan er komin“.“
Lóan „Sýning Steingríms ber hinn bjartsýna titil „Lóan er komin“.“
Opið alla daga vikunnar 10:00 – 17:00. Aðgangur ókeypis. Sýningin stendur til 2. mars.

Í LISTASAFNI Reykjavíkur, Hafnarhúsi, stendur nú yfir sýning á innsetningu Steingríms Eyfjörð sem var framlag Íslendinga á Feneyjatvíæringnum síðastliðið sumar. Steingrímur er þjóðinni vel kunnur enda verið ötull og áberandi í íslensku listalífi í meira en þrjátíu ár. Hann er þekktur fyrir verk í anda konseptlistar sem lagði meiri áherslu á hugmyndina sjálfa í formi texta, útskýringa, ljósmynda, teikninga og verkferla en hefðbundin endanlega útfærð myndverk. Aðferðafræði konseptlistarinnar er í útvíkkaðri mynd orðin eitt helsta einkenni samtímamyndlistarinnar þar sem hún hefur blandast áherslum póstmódernismans. Til dæmis áherslum á kennimörk sjálfsmynda, hvort heldur sem einblínt er á þjóðir, kynþætti, kynferði, kyngervi, eða annarra þátta sem byggja upp samsemd.

Sýning Steingríms ber hinn bjartsýna titil „Lóan er komin“ og inniheldur margvísleg verk sem virðast innbyrðis óskyld en tengjast þó öll einhverjum mýtum sem eiga þátt í sameiginlegri sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar. Þótt þrívíddarmyndverk á borð við risavaxna lóu, heldur minni spóa steyptan í brons og stíu fyrir ósýnilega álfakind virðist vera í aðalhlutverki á sýningunni þá eru þau frekar eins og sjónrænn viðbótar-lúxus við alla handskrifuðu textana, prentuðu sögurnar, ljósmyndir og útskýringar sem eru burðarásinn í sýningunni.

Þjóðarsálin íslenska sem hér birtist er málum blandin, gefur sig út fyrir að vera rannsakandi og gagnrýnin á sjálfa sig um leið og sjálfsupphafningin skín í gegn. Eins og þegar yfirsjálfið lekur yfir í gyllisjálf. Þótt áherslan sé á að áhorfandinn lesi sýninguna vitsmunalega samkvæmt konseptlistahefðinni sem leggur mest í orð og texta þá felur hún einnig í sér sjónrænar fagurfræðilegar skírskotanir sem krefjast tilfinningalegrar skynjunar.

Þessi samsláttur hins rökrétta og órökrétta, texta og myndar er áberandi og meðvitaður þáttur í sýningunni. Hugmyndin um Lógosið sem mystískt samband orðs og myndar er það leiðarstef sem sýningin hverfist um. Hvernig á að lesa mynd og hvernig á að sjá orð. Lógó á morgunkornspökkum leika stórt sjónrænt hlutverk um leið og pakkarnir sjálfir eru notaðir sem Camera Obscura myndavél til að soga í sig ímyndir af Þingvöllum. Broddur pólitískrar gagnrýni litaður samsæriskenningum gefur ákveðinn tón. Sýningin sem heild gefur í skyn að hún búi yfir einhverju meiru heldur en samanlögð einstök verk hennar fela í sér. Upphafinn gregorískur söngur sem heyra má á myndbandi ýtir undir hugleiðsluástand og gerir áhorfandanum kleift að dvelja lengur og lesa meira í von um að finna einhvern sannleikskjarna sem verkin öll virðast gefa fyrirheit um.

Tilfinning fæst fyrir því að dulin skilaboð leynist í sýningunni, einhver samnefnari, einhver kenning eða heimspeki eða trú. Þetta er eins og að vera eða horfa á alkemista sigta hverja sandhrúguna á fætur annarri í leit að gullkorni eða reyna að skapa það með því að eima eða blanda saman ódýrum málmum.

Sýningin er ákaflega flókin um leið og ekkert krefst þess að maður skilji hana því það er í sjálfu sér nóg að undrast eða brosa. Eða samsama sig hinni meðvituðu bernsku nálgun listamannsins sem setur sig í stellingar þess sem spyr og lærir af öðrum í hinum fjölmörgu viðtölum sýningarinnar. Það vísar í hið hreina hjarta sem er forsenda þess að fá að sjá inn í hina huldu heima. Trúarleg stef eru áberandi, jatan, vatnið, saltið af veginum, ósýnilega kindin, fiskurinn og leynda vopnið gætu falið í sér vísun um yfirnáttúrulega eða fagurfræðilega útvalningu þjóðarinnar eða fulltrúa hennar.

Steingrímur hefur í samvinnu við fjölmarga aðila náð að skapa einstaka og eftirminnilega sýningu sem snertir nauðsynlega tilurð óra fyrir sjálfsmynd, hvort heldur er einstaklings eða þjóðar. Ágætri sýningarskrá hefði þó mátt fylgja stækkunargler.

Þóra Þórisdóttir