The Black Keys
The Black Keys
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Nífætta mulningsskrímslið Slipknot snýr aftur með hljóðversplötu í ágúst komandi. Þetta verður fjórða plata sveitarinnar þeirrar tegundar en sú síðasta, Vol.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Nífætta mulningsskrímslið Slipknot snýr aftur með hljóðversplötu í ágúst komandi. Þetta verður fjórða plata sveitarinnar þeirrar tegundar en sú síðasta, Vol. 3: ( The Subliminal Verses ), kom út 2004 og átti þá að vera síðasta plata sveitarinnar enda hætti hún í kjölfarið, lagðist hið minnsta lengi í híði. Undirbúningur fyrir þessa nýju plötu hófst í október en upptökur fóru víst í gang í þessum mánuði. Meðlimir hafa lýst því yfir að þetta verði þyngsta plata sveitarinnar til þessa (að sjálfsögðu) en um leið sú tilraunakenndasta, þar sem kassagíturum og melódískum söng verður beitt í meiri mæli en áður. Hmmm...það verður forvitnilegt að heyra hvernig sveitin hyggst standa við þessar yfirlýsingar. Hljómsveitin ætlar annars að skella sér í sumartúr ásamt Disturbed og kallast túrinn Rockstar Mayhem, og er kostaður af Rockstar Energy orkudrykkjaframleiðandanum. Fleiri nöfn eiga eftir að bætast við þennnan gróðavænlega túr.

Mick gamli Jones, fyrrum gítarleikari The Clash, rekur nú dúettinn Carbon/Silicon ásamt öðru stríðshrossi úr hinni upprunalegu bresku pönksenu, Tony James (Generation X, síðar Sigue Sigue Sputnik, síðar Sisters of Mercy). Þeir voru áður fyrr saman í hinni goðsagnakenndu London SS, sem hætti áður en pönksprengingin mikla varð árið 1977. Carbon/Silicon mun nú leika nokkra tónleika á kránni On The Green og það kom mörgum gestum á óvart þegar sjálfur Topper Headon, fyrrum trymbill The Clash, kom fram sem gestur í tveimur lögum á fyrstu tónleikunum, sem fóru fram á föstudeginum fyrir rúmri viku. Þetta var í fyrsta skipti í tuttugu og fimm ár sem Jones og Headon deildu sviði. Headon skellti sér upp á svið í uppklappinu, en þá renndi sveitin sér í „Train In Vain“ og „Should I Stay Or Should I Go?“. Allt síðan hin „klassíska“ liðsskipan The Clash lagði upp laupana hefur verið gasprað um endurkomutónleika en þeir draumar urðu að engu árið 2002 þegar leiðtoginn, Joe Strummer, sneri tám upp í loft. Paul Simonon bassaleikari sást síðast með Damon Albarn í The Good, The Bad and The Queen . Allir þrír eftirlifandi meðlimir eru því að tónlistast eitthvað og það er því spurning um að gera þetta að hætti Led Zeppelin. Spurning hver fyllir þá skarð Strummer?

Rokkblúsdúettinn ágæti The Black Keys gefur út nýja plötu 1. apríl og kallast hún Attack & Release . Búast má við einhverjum breytingum á hrárri og orkuríkri framreiðslu hans á blúsbundnu rokkinu en það er ofurupptökustjórinn Danger Mouse sem snýr tökkum og rennir upp sleðum á plötunni. Þá var platan tekin upp í Cleveland en allar plötur sveitarinnar hingað til hafa verið teknar upp á heimaslóðum í Akron, Ohio. Samstarf Black Keys og Danger Mouse hófst í kringum nýja hljóðversplötu Ike heitins Turner en þær áætlanir runnu fljótlega út í sandinn. Það sem komið var inn á band þá var nýtt í þessa nýju plötu.