Frode Hagen
Frode Hagen
„STEINAR Ege er besti vinur Noregs,“ sagði Gunnar Pettersen, þjálfari norska landsliðsins í handknattleik, eftir 11 marka sigur liðsins, 32:21, gegn Rússum í gær.

„STEINAR Ege er besti vinur Noregs,“ sagði Gunnar Pettersen, þjálfari norska landsliðsins í handknattleik, eftir 11 marka sigur liðsins, 32:21, gegn Rússum í gær. Norðmenn lögðu Dani í fyrsta leik B-riðils og eru því öruggir áfram í milliriðil. Ege, sem er liðsfélagi Arnórs Atlasonar hjá FCK í Kaupmannahöfn, varði 18 skot í fyrri hálfleik og sagði Pettersen að aldrei fyrr hefði norskur markvörður sýnt önnur eins tilþrif í landsleik. Ege, sem er 35 ára, bjargaði málunum í 27:26sigri gegn Dönum þar sem hann varði síðasta skot leiksins. „Ég held að ég hafi ekki leikið betur á mínum ferli,“ sagði Ege. Pettersen sagði ennfremur að stuðningur tæplega 5.000 áhorfenda í Drammen hefði skipt miklu máli. „Ég viðurkenni það fúslega að sumir á varamannabekk okkar misstu stjórn á tilfinningunum undir lok leiksins þegar sigurinn var í höfn. Það láku tár og ég hef aldrei verið eins glaður,“ sagði þjálfarinn sem grét af gleði í leikslok.

Frode Hage var markahæsti leikmaður Norðmanna með 9 mörk og Håvard Tvedten skoraði 6. Andrei Starikh skoraði 5 mörk fyrir Rússa sem gerðu jafntefli, 25:25, gegn Svartfellingum í fyrsta leik. Glenn Solberg, einn reyndasti leikmaður Norðmanna, ákvað á síðustu stundu að gefa kost á sér í leikina á EM og segir hann að sú ákvörðun hafi verið rétt. „Ég vissi að við gætum lagt Rússa að velli en ég held að fáir okkar hafi trúað því að við gætum lagt þá með 11 marka mun. Ég fékk gæsahúð og hárin risu á hnakkanum þegar áhorfendur risu úr sætum í leikslok,“ sagði Solberg.