Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@wisc.edu Þau okkar sem fylgdust með Golden Globe verðlaunaafhendingunni um síðustu helgi urðu vitni að nokkuð sérstökum atburði.

Eftir Björn Þór Vilhjálmsson

vilhjalmsson@wisc.edu

Þau okkar sem fylgdust með Golden Globe verðlaunaafhendingunni um síðustu helgi urðu vitni að nokkuð sérstökum atburði. Það sem venjulega er ein af helstu skrautsýningum og sjónarspilum Hollywood, eins konar auglýsing fyrir vörur liðins árs, var að þessu sinni lágstemmt og smekklegt. Tilkynnt var um tilnefningarnar og verðlaunahafana á blaðamannafundi, og þar með var það búið. Enginn verðlaunahafanna var á staðnum og því ástæðulaust að efna til þess hana- og hænuslags sem annars fer fram á rauða teppinu, og áhorfendum var hlíft við þakkarræðunum. Ástæðan fyrir þessari skyndilegu umbreytingu verðlaunanna var verkfall rithöfunda í Hollywood, ekki hógværð aðstandenda, en verkfall þetta hefur staðið yfir í á þriðja mánuð. Ljóst var að mikilvægustu stjörnurnar myndu sýna rithöfundum samstöðu með því að mæta ekki, auk þess sem ég á von á því að einhver þurfi að skrifa handrit fyrir svona hátíð, svo ákveðið var að blása öll herlegheitin af, eða því sem næst. Eftir stóð þessi skemmtilegi og hnitmiðaði blaðamannafundur.

Hátíðarhöld á borð við Golden Globe og örlög allra eftirpartíanna eru þó ekki helsta áhyggjurefni Hollywood-framleiðenda um þessar mundir. Gerð frumsaminna sjónvarpsþátta hefur lagst af sökum skorts á handritum og kvikmyndaframleiðsla er þegar farin að eiga í erfiðleikum. Þættir á borð við Desperate Housewives , My Name is Earl og 24 hafa horfið af skjánum, nema í formi endursýninga, og áhrifin eru því afar víðtæk: allir sem koma nálægt sjónvarpsþáttagerð af þessu tagi í Bandaríkjunum, leikstjórar, leikarar, förðunarfólk, ljósamenn o.s.frv., eru um þessar mundir atvinnulausir. Og atvinnuvegurinn á sér vitanlega höfuðstöðvar á Vesturströndinni. Áætlað tekjutap Los Angeles borgar gæti numið allt að 150 milljörðum króna.

Ástæðan fyrir verkfallinu var fyrst og fremst krafa rithöfunda um frekari þátttöku í tekjum myndefnis þegar því er dreift í aðra miðla en sjónvarp, og er hér horft til netsins, dreifingar í síma, niðurhalningar í spilastokka og birtingar í formi hlaðvarpsins, o.s.frv. Gott ef tekjur af sölu mynddiska eru ekki einnig til umræðu. Framleiðendur halda því fram að ekki sé auðvelt að reikna út verðmæti áðurnefndra miðlunarleiða en rithöfundar benda á að forstjórar stóru framleiðslufyrirtækjanna séu sífellt að tala um viðskiptagildi stafrænu byltingarinnar, hreykja sér af nútímalegum viðskiptaaðferðum sínum, og eitthvað hljóti að búa þar að baki, auk þess sem orðræðan hafi m.a. skilað sér í hækkun hlutabréfa.

Lítið hefur miðað í samræðum milli stríðandi fylkinga, talsmenn framleiðenda strunsuðu af fundi nú fyrir jól og hefur ekki mikið gerst síðan, að því undanskildu að rithöfundar eru byrjaðir að semja við einstök framleiðslufyrirtæki. Þannig gerði framleiðslufyrirtæki Weinstein-bræðra sérstakan samning við handritshöfunda, og sama gerði United Artists undir leiðsögn Tom Cruise, og geta þau því hafið framleiðslu á ný á því efni sem þau vilja.

Þess má geta að kringumstæður líkt og þær sem skapast hafa núna, að skrúfað sé fyrir kranann á framleiðslu leikins efnis, voru einmitt sú ógn sem Hollywood-mógúlarnir sáu í spilunum þegar þeir börðust með kjafti og klóm gegn stofnun öflugrar verkalýðshreyfingar atvinnurithöfunda á fjórða áratugnum. Mógúlunum varð reyndar ekki að ósk sinni, eftirköst kreppunnar voru enn ljóslifandi í hugum fólks og stéttabaráttan var háð af miklum krafti. Þannig varð Hollwood, eins furðulega og það annars hljómar, að eins konar „union town“ – þ.e. bæ sem einkennist af sterkum verkalýðsfélögum – og hefur verið æ síðan.

En hver verða eftirköstin að þessu sinni? American Idol hóf göngu sína að nýju í síðustu viku og talið er líklegt að sjónvarpsfyrirtækin leiti æ meira á náðir raunveruleikaþátta. Það er ekki vegna þess að raunveruleikaþættirnir séu ekki jafn háðir góðum handritshöfundum og leiknir þættir– þeir eru það svo sannarlega – heldur vegna þess að „raunveruleika“-höfundarnir eru samningsbundnir á annan veg en kollegar þeirra í leikna efninu. Hafa sumir af þessu áhyggjur og hugsa að nóg hafi verið þrengt að leiknu sjónvarpsefni í Bandaríkjunum nú þegar án þess að raunveruleikaþáttunum sé gefinn eftir allur markaðurinn. Hitt kann þó að reynast allt eins líklegt, að holskefla raunveruleikaþátta verði til þess að áhuginn fyrir forminu dofni meðal áhorfenda. En nú þegar Óskarinn er á næsta leiti hlýtur maður líka að spyrja hvort kraftur verði ekki settur í að leysa deiluna svo ekki fari eins fyrir honum Skara og Golden Globe. Blaðamannafundur væri að flestra mati langt fyrir neðan virðingu þeirrar samkundu.