Einu sinni var ég í svonefndri brígöðu á Kúbu. Veran þar gekk út á að fræðast um kúbverskt samfélag. Við unnum á samyrkjubúi á morgnana og fengum fræðslu um byltinguna eftir hádegi. Í brígöðunni var okkur sagt að á Kúbu væri allt frábært.

Einu sinni var ég í svonefndri brígöðu á Kúbu. Veran þar gekk út á að fræðast um kúbverskt samfélag. Við unnum á samyrkjubúi á morgnana og fengum fræðslu um byltinguna eftir hádegi.

Í brígöðunni var okkur sagt að á Kúbu væri allt frábært. Þar væri menntun fyrir alla og fyrirtaks heilsugæsla. Ég kinkaði kolli.

Svo var aftur sagt að Kúba væri frábær. Þar væri menntun fyrir alla og fyrirtaks heilsugæsla. Ég kinkaði aftur kolli.

En svo var einu sinni enn sagt að Kúba væri frábær. Þar væri menntun fyrir alla og fyrirtaks heilsugæsla. Og þá fór ég að efast.

Klifunin sáði hjá mér fræjum efasemda. Nú er það alveg rétt að á Kúbu er menntun fyrir alla og ágæt heilsugæsla, en meðan þrástagast var á því var kannski eitthvað annað sem ekki var rætt.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las í vikunni nýtt frumvarp utanríkisráðherra til varnarmálalaga. Tvær klifanir vöktu einkum athygli mína.

Sú fyrri er alls ekki ný af nálinni og hefur verið gegnumgangandi í íslenskum utanríkismálum allt frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, þ.e. fullyrðingin um herleysi Íslands. Í frumvarpinu er sagt fjórum sinnum að Íslendingar séu herlaus þjóð.

Her og ekki her

Auðvitað eru Íslendingar að nafninu til herlaus þjóð og auðvitað er frábært að almenn samstaða sé um að ekki verði stofnaður íslenskur her. En stöðugt tal um herleysi verður hálfhjákátlegt þegar horft er til þess að hér hefur verið rekin hernaðarleg starfsemi í áratugi, auk þess sem Ísland tekur virkan þátt í hernaðarbandalaginu NATO. Eða er höfuðatriði hverrar þjóðar herliðið eða starfsfólkið þegar kemur að hernaðarlegri starfsemi?

Hin klifunin sem ég hnaut um tengist forræði verkefnanna sem um ræðir í frumvarpinu. Mikil áhersla er lögð á að varnir verði einungis tryggðar með samstarfi við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Það sé „eðli málsins samkvæmt“ á forræði utanríkisráðherra.

Þarna er tilgangurinn augljóslega að draga skýra línu milli dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins. Af umræðunum á Alþingi að dæma virðist Björn Bjarnason dómsmálaráðherra þó ekki líta svo á að frumvarpið breyti nokkru um starfsemi stofnana ráðuneytis síns. Hann hefur bent á að það sé engin ástæða til þess að halda úti sérstakri vaktstöð til að fylgjast með þeim merkjum sem tæki fyrrum ratsjárstofnunar afla. Slíkt eftirlit geti verið hjá flugumferðarstjórum jafnt sem vaktstöðinni í Skógarhlíð.

Björn sagði í umræðum um frumvarpið að engin ákvæði í því útiloki að staðið verði að eftirlitinu á þennan hátt. Samt sem áður á að koma á fót varnarmálastofnun sem á að sinna einmitt þessu hlutverki.

Í frumvarpinu er lögð mikil áhersla á mikilvægi þess að aðgreina almenna löggæslu frá landvörnum. M.ö.o. eiga borgaralegar varnir að vera aðgreindar frá verksviði varnarmálastofnunar. Varnarmálastofnun er því ekki borgaraleg, en hvað er hún þá?

Hvað með RIKK?

Það er kannski óþarfi að lesa of mikið í frumvarp sem er fyrst og fremst stjórnsýslulegs eðlis og jákvætt sem slíkt. Svo virðist samt sem byrjað hafi verið á öfugum enda. Eins og ritstjóri Fréttablaðsins benti á var fyrst tekin ákvörðun um fjárframlag til málaflokksins og síðan lagt fram stefnumótandi frumvarp. Þá eru niðurstöður starfshóps sem á að vinna hættumat fyrir Ísland ekki væntanlegar fyrr en næsta haust.

En að allt öðru. Önnur umræða um jafnréttisfrumvarp félagsmálaráðherra fór fram snemma í vikunni. Það er ákveðið gleðiefni að það hafi einkum verið skipan jafnréttisráðs sem deilt var um, auk hugmynda um vottun fyrir fyrirtæki, enda þýðir það að lending hefur náðst um afar mikilvæg skref í jafnréttisbaráttunni.

Hins vegar er varla annað hægt en taka undir með Kolbrúnu Halldórsdóttur um að vægast sagt sé undarlegt að gera ekki ráð fyrir að Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) eigi fulltrúa í ráðinu, enda er þar mesta fræðilega þekkingin á kynjamisrétti í samfélaginu.

Rökin um að leita þyrfti eftir fulltrúa frá félagi sem væri mótvægi við kvennahreyfinguna eru óskaplega rýr og ég sæi þeim beitt á öðrum stöðum, þar sem fremur hallar á konur.

Hvað sem öðru líður þá er frumvarpið að nálgast að verða að lögum og það er fagnaðarefni fyrir alla sem eru áfram um jafnrétti.