Eftir Halldóru Þorsteinsdóttur Halldora@24stundir.is „Það má segja að ég lifi og hrærist í tískunni.

Eftir Halldóru Þorsteinsdóttur

Halldora@24stundir.is

„Það má segja að ég lifi og hrærist í tískunni. Ég fer mikið til Danmerkur ásamt öðrum löndum til þess að heimsækja hönnuði, skoða gallerí og efla sambandið við fólk í tískugeiranum úti,“ segir Elísabet Ómarsdóttir, förðunarfræðingur og eigandi hárgreiðslustofunnar KRISTU/Quest. Hún kveðst fara sínar eigin leiðir í fatavali og á það til að klæðast flíkum eða aukahlutum sem vekja undrun annarra.

„Ég hef mjög gaman af afbrigðilegri tísku og er ekkert endilega að elta það sem aðrir eru að gera. Ég er til dæmis mjög hrifin af Ditu von Teese, fyrrverandi eiginkonu Marilyn Manson, og eins Vivanne Westwood. Þá kannski fötum sem mér finnst ofboðslega flott en öðrum finnst ónothæft drasl,“ segir Elísabet og bætir við allar öfgar séu henni að skapi.

„Ég klæði mig oft í margs konar föt og vil hafa mikinn íburð. Ég nota til dæmis tvennar sokkabuxur, tvö pils eða sokkabuxur og hnésokka saman. Ég nota líka sokkabönd og er óhrædd við að fara í hluti sem sumir myndu kannski ekki þora að nota. Ég set til dæmis íburðarmikil belti utan á kápurnar auk þess sem mér finnst flott að setja nokkurs konar korsilettu utan á kápur og jakka.“

Selur skrautspangir í massavís

Elísabet hefur vakið nokkra athygli fyrir eigin hönnun, en hún hefur síðustu misserin hannað skrautlegar hárspangir við góðar undirtektir hér á landi sem erlendis.

Viðtökur á erlendri grund hafa ekki brugðist, en hún sendir reglulega spangir til Danmerkur og Bretlands.

„Svo bý ég líka til allskonar skóskraut og hálskraga. Þegar ég er ekki að farða fyrir myndatökur eða önnur verkefni er ég eiginlega alltaf að grúska í minni eigin hönnun. Svo seljum við hlutina á hárgreiðslustofunni okkar Nonna, kærasta míns, KRISTU/Quest, ásamt því sem ég sel aðra hönnun líka. Ég hef líka verið að prófa mig áfram í silfurskarti en hef ekki ennþá byrjað að selja það. En það kannski kemur að því,“ segir Elísabet, sem greinilega er með puttann á púlsinum þegar kemur að tísku.

„Það má segja að ég sé tískufrík en þó þannig að ég fer alveg eftir eigin höfði. Ég fylgist mikið með flottri hönnun og er óhrædd við að prófa eitthvað nýtt. Það þurfa ekki endilega að vera dýrir hlutir því oft má búa til flott dress úr þeim ódýrari ef efni og snið eru falleg. Annars er stíllinn minn almennt fjölbreyttur. Svarti liturinn er í uppáhaldi, en þegar kemur að skarti, svosem hárskrauti, höttum og öðrum höfuðbúnaði, vel ég mér hins vegar einhverja brjálaða liti.“