[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Trausta Salvar Kristjánsson traustis@24stundir.is Margir þekkja til verka Rebekku Guðleifsdóttur, sem slegið hefur í gegn á myndavefnum flickr.com fyrir afburðaljósmyndir sínar.

Eftir Trausta Salvar Kristjánsson

traustis@24stundir.is

Margir þekkja til verka Rebekku Guðleifsdóttur, sem slegið hefur í gegn á myndavefnum flickr.com fyrir afburðaljósmyndir sínar. Rebekka opnar í dag sína fyrstu ljósmyndasýningu í kjallara Norræna hússins klukkan 16 og stendur sýningin yfir til 10. febrúar.

Er meira en bara flickr-stelpan

„Þetta er mín fyrsta einkasýning, sem er ekki í tengslum við neitt annað verkefni. Þetta eru 24 myndir sem ég vann á árunum 2005-2007 og eru þetta annars vegar sjálfsmyndir og hins vegar náttúru- og landslagsmyndir,“ segir Rebekka sem er hægt og bítandi að slíta sig frá netinu. „Ég nýtti netið til þess að koma mér á framfæri og það tókst mjög vel, með 4-5 milljónir heimsókna á síðuna mína. Þar fékk ég uppbyggilega gagnrýni og gat þróað minn stíl. En nú er þetta orðið gott í bili, ljósmyndir eiga miklu fremur heima í stærri umgjörð uppi á vegg en á takmörkuðum tölvuskjá. Einnig vil ég helst ekki vera þekkt sem flickr-stelpan það sem eftir er! Því er það ákveðinn sigur að halda þessa sýningu og draumurinn er að gefa út bók, sem yrði helst sett á erlendan markað, enda hef ég náð að vekja mesta athygli þar frekar en hér heima!

Þjófnaður lán í óláni

Rebekka lenti í óprúttnum aðilum um mitt ár í fyrra, sem stálu ljósmyndum hennar af netinu og seldu fyrir góða summu, án þess að hún fengi krónu fyrir. Þrátt fyrir þreifingar af hennar hálfu tókst henni ekki að hafa hendur í hári þjófanna. „Nei, því miður, það varð aldrei neitt úr því. En hins vegar varð þetta atvik til þess að ég kom á fót eigin netverslun og í rauninni var þetta bara hvatning fyrir mig til þess að selja myndirnar mínar sjálf.“

Myndar meðfram náminu

„Ég hef verið í myndlistardeild Listaháskólans auk þess að sinna ljósmyndaáhuganum. Ég hef einnig verið að teikna og gera hreyfimyndir, en vinn þó aðallega með ljósmyndamiðilinn, sem er annað og meira en bara að miða og hleypa af. Flestar myndirnar á sýningunni eru til sölu að sögn Rebekku og aðgangur er ókeypis.