[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kaupmannasamtök Íslands (KÍ) stóðu ásamt fleirum að stofnun Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) árið 1999.

Kaupmannasamtök Íslands (KÍ) stóðu ásamt fleirum að stofnun Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) árið 1999. Hin nýju samtök tóku þá við hlutverki KÍ og fleiri félagasamtaka sem áður sáu um hagsmunagæslu fyrir atvinnurekendur í verslunar- og þjónustugreinum. KÍ áttu miklar eignir þegar SVÞ voru stofnuð en í stað þess láta þær renna inn í hin nýju samtök var ákveðið að viðhalda KÍ en breyta hlutverki þeirra og tilgangi. Eignirnar voru seldar og andvirði þeirra sett í sjóð.

„Umsjón með eignum“

Í nýjum samþyktum KÍ segir að tilgangur þeirra sé annars vegar „að stuðla að framgangi verslunarinnar og verslunarmenntunar í landinu og koma eftir aðstæðum að varðveislu hvers konar menningarverðmæta sem tengst hafa verslunarsögu landsins, meðal annars með styrkveitingum til safna og til útgáfustarfsemi.“ Hins vegar er tilgangurinn „að hafa umsjón með eignum samtakanna og ávöxtun fjármuna þeirra í samræmi við skýra fjárfestingastefnu.“

Hlutverk KÍ hefur því breyst frá því sem áður var, þegar þau voru aðili á vinnumarkaði, sem semur um kaup og kjör, í að vera eins konar fjárfestingar- og styrktarsjóður sem á að styðja við þróun verslunar í landinu. SVÞ hafa aftur á móti tekið við eldra hlutverki KÍ.

„Fyrrverandi kaupmenn“

Í samþykktum KÍ segir um aðild: „Aðilar að KÍ geta orðið fyrrverandi kaupmenn og rekstraraðilar, sem áður voru félagar í KÍ, svo og einstaklingar, sem starfa við verslunarrekstur.“ Aðild er hins vegar háð samþykki stjórnar. Í samþykktunum segir einnig: „Félagsmenn KÍ og aðildarfélaga þeirra verða sjálfkrafa við inngöngu beinir félagsmenn í SVÞ og Samtökum atvinnulífsins (SA). Þetta gildir þó ekki um fyrrverandi kaupmenn og einstaklinga sem ekki eru lengur í rekstri.“

Í stjórn lífeyrissjóðs

Þrátt fyrir að KÍ hafi ekki lengur hlutverk á vinnumarkaði hafa þau enn áhrif á og aðild að ýmsum þáttum sem tilheyra vinnumarkaði. Þar á meðal er sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, eins stærsta lífeyrissjóðs landsins.

Lífeyrissjóður verslunarmanna starfar á grundvelli samkomlags VR, Samtaka iðnaðarins (SI), Félags íslenskra stórkaupmanna (FÍS), KÍ, SA og Verslunarráðs Íslands. Í samþykktum hans segir að af átta fulltrúum í stjórn skuli einn þeirra vera tilnefndur af KÍ. Fjórir eru tilnefndir af VR, SA og Verslunaráð skipa einn fulltrúa í sameiningu og hin tvenn samtökin einn hvor.

SVÞ hafa sóst eftir því að fá sæti KÍ þar sem þau telja að stjórnarsetan samræmist frekar starfsemi þeirra en KÍ, sem er ekki lengur aðili að vinnumarkaði. Samþykktir lífeyrissjóðsins hafa þó komið í veg fyrir að svo verði en þeim verður ekki breytt nema með samþykki allra aðila. KÍ hafa hingað til neitað að gefa eftir sætið til SVÞ.

Hlutdeild í félagsheimilasjóði

Í kjarasamningi á milli VR og SA er kveðið á um greiðslur vinnuveitenda í Félagsheimilasjóð. Samkvæmt kjarasamningunum ber vinnuveitendum að greiða í sjóðinn 0,25 prósent af sama launastofni og lífeyrissjóðsgjöld eru reiknuð af. Greiðslur úr sjóðnum skiptast síðan á milli nokkurra samtaka atvinnurekenda auk KÍ.

Þegar SVÞ voru stofnuð sömdu KÍ um að nýju samtökin fengju hluta af þeirra hlutdeild í sjóðnum. Síðan þá hafa KÍ gefið eftir meira af sínum hlut til SVÞ. Samtök verslunar og þjónustu hafa ekki verið fullkomlega sátt við þetta fyrirkomulag enda eru greiðslur í sjóðinn hluti af kjarasamningum og því ætlaðar aðilum vinnumarkaðarins.

Sérstök staða KÍ

Staða KÍ er því mjög sérstök. Samtökin létu af hlutverki sínu á vinnumarkaði fyrir tæpum áratug en fá þó enn til sín tekjur sem eru tilkomnar vegna kjarasamninga auk þess sem þau eiga fulltrúa í stjórn eins stærsta lífeyrissjóðs landsins.

KÍ hafa hingað til hafnað öllum óskum um að gefa eftir stjórnarsætið og er ekki búist við að svo verði á næstunni. Samtökin munu því líklega halda sérstöðu sinni áfram.

Í hnotskurn
KÍ hafa verið einn af bakhjörlum Rannsóknarseturs verslunarinnar. KÍ hafa styrkt verslunarbraut Borgarholtsskóla auk þess að veita styrki til ýmissa safna.