Sturla Böðvarsson
Sturla Böðvarsson
Sturla Böðvarsson skrifar um friðun gamalla húsa: "Ég gat ekki hugsað mér sem forseti Alþingis að standa fyrir því að rífa Skjaldbreið í andstöðu við þá sem af einlægni vinna að húsafriðunarmálum."

UMRÆÐUR um húsafriðunarmál hafa verið nokkrar að undanförnu. Þar vegast á þeir sem leggja áherslu á virka húsafriðun, þeir sem vilja skapa svigrúm til húsbygginga í hjarta borgarinnar og síðan þeir sem fara með skipulagsmálin í borginni. Ábyrgð skipulagsyfirvalda og stjórnenda sveitarfélaga er mikil þegar fjallað er um framkvæmdir í grónum hverfum þar sem menningarminjar eru fólgnar í húsum og manngerðu umhverfi. Mjög athyglisvert innlegg bættist við í þessa umræðu þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, doktorsnemi í skipulagshagfræði og fyrrum sjónvarpsfréttamaður, kvaddi sér hljóðs í Silfri Egils með athyglisverð sjónarmið til varnar húsafriðun.

Láttu rífa gömlu húskofana

Árið sem ég hóf störf sem sveitarstjóri í Stykkishólmi kom til mín maður sem hafði einlægan áhuga á að efla atvinnulífið í bænum og skapa þar nýja bæjarmynd með „uppbyggingu“. Ráðleggingar hans til hins unga sveitarstjóra voru einfaldar: ,,Viljir þú láta til þín taka sem sveitarstjóri láttu þá rífa gömlu húskofana sem eru í niðurníðslu vegna skorts á viðhaldi,“ sagði þessi ágæti athafnasami maður. Ég var mjög hugsi vegna þessara ráðlegginga. Mér var í raun mjög brugðið. Ég hafði fyrst komið til Stykkishólms sem unglingur og dáðist þá að öllum gömlu húsunum sem settu svip á staðinn og voru til marks um byggingarlist, handverk og menningu liðins blómatíma. Ekki fór á milli mála að flest gömlu húsin voru ekki lengur bæjarprýði í því ástandi sem þau voru og sumum hafði verið breytt mikið frá upphaflegri gerð. Ég ræddi þetta við samstarfsmann minn, sem var ekki síður áhugasamur um framtíð staðarins. Við vorum sammála um að mikill skaði hefði verið að því að láta rífa gamla Apótekið sem stóð á planinu upp af höfninni og var mjög áberandi. Niðurrif húsanna var ekki á dagskrá í huga okkar. Mér var mjög létt þegar ég fann síðan að verulegur áhugi var fyrir því að vernda gömlu húsin í bænum og halda þannig bæjarmyndinni sem hafði þróast allt frá því að þýskir og danskir kaupmenn settust að og hófu verslun.

Gömlu húsin eru einstök

Árin liðu og mörg þessara húsa í Stykkishólmi, sem mér þóttu menningarverðmæti, urðu stöðugt hrörlegri. Á þessum tíma var unnið að skipulagi bæjarins og endurbótum á gatnakerfinu. Meðal fyrstu aðgerða til þess að efla húsafriðun var endurgerð Norska hússins og að bærinn festi kaup á svokölluðu Egilshúsi sem stendur núna rauðmálað og fallegt í hjarta bæjarins. Það var endurgert í samstarfi við einstaklinga sem lögðu fram vinnu sína við verkið. Í tengslum við breytingar á skipulagi miðbæjarins var ákveðið af bæjarstjórninni að láta vinna svokallaða húsakönnun. Var henni ætlaða að verða grundvöllur að friðun húsa og varðveislu gamla bæjarhlutans sem mest í óbreyttri mynd. Á þessum tíma vann Hörður Ágústsson, listmálari og fornhúsafræðingur, sem ráðgjafi við endurgerð Norska hússins í Stykkishólmi sem er elsta tvílyfta timburhús landsins. Ég leitaði til Harðar með það verkefni að vinna húsakönnun fyrir Stykkishólm. Hann tók það fúslega að sér og var verkið unnið með stuðningi húsafriðunarnefndar og þáverandi þjóðminjavarðar Þórs Magnússonar. Því verki lauk árið 1978 og varð greinargerð Harðar grundvöllur skipulagsins sem gerði ráð fyrir að varðveita nær öll gömlu húsin í elsta bæjarhlutanum upp af höfninni frá Silfurgötu, Skólastíg, Aðalgötu, Hafnargötu og Austurgötu. Þegar húsakönnun lá fyrir og eigendum húsanna varð ljóst að húsið þeirra var hluti af mikilvægum menningararfi staðarins varð hugarfarsbreyting. Árangurinn má sjá í dag. Gömlu húsin í Stykkishólmi gera bæinn einstakan og í dag vildu allir Lilju kveðið hafa.

Mikilvægar endurbætur á Alþingisreit

Þetta rifja ég upp í tilefni þeirra deilna sem orðið hafa um verndun gamalla húsa við Laugaveginn og ekki síður vegna þess að Alþingi samþykkti nú fyrir jólin fjárveitingar til endurgerðar tveggja gamalla húsa sem standa á Alþingisreitnum í miðri höfuðborginni okkar. Ég gat ekki hugsað mér sem forseti Alþingis að standa fyrir því að rífa Skjaldbreið í andstöðu við þá sem af einlægni vinna að húsafriðunarmálum í borginni hvað þá að láta byggja stórt fjögurra eða fimm hæða skrifstofuhús upp að Vonarstræti 12 sem er húsið sem þau Theodóra og Skúli Thoroddsen byggðu og stendur fast við hið stóra Oddfellowhús og hefði að margra mati fallið illa inn í þá mynd sem hefði orðið á Vonarstrætinu með því skipulagi. Rétt er að geta þess að borgaryfirvöld hafa samþykkt það skipulag sem gerir ráð fyrir Skjaldbreið endurbyggðri og að Skúlahús verði flutt á horn Kirkjustrætis og Tjarnargötu. Mér finnst mikilvægt að fylgja þeim ákvörðunum eftir sem samþykktar hafa verið af borgaryfirvöldum og forsætisnefnd svo Alþingisreiturinn geti byggst upp til framtíðar með virðingu fyrir fortíðinni. Húsin á Laugavegi og skipulag þess svæðis sem deilt er um þekki ég ekki og tek því ekki afstöðu til þess hvort þau skuli endurbyggja. Það gera til þess bærir aðilar og þá helst borgaryfirvöld sem hljóta að leiða það mál til lykta.

Höfundur er forseti Alþingis.