Ámundi Loftsson
Ámundi Loftsson
Opið bréf til Einars K. Guðfinnssonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, frá Ámunda Loftssyni: "Samtök útgerðarmanna og bænda hvöttu stjórnvöld til að ganga sem harðast fram í þessum afbrotum."

ÞEGAR þú varst nýkjörinn þingmaður Vestfirðinga fyrir hartnær tuttugu árum átti ég við þig fund. Erindi mitt var að afla, eða öllu heldur staðfesta stuðning þinn við andóf mitt og um hundrað annarra bænda gegn stjórnaháttum í landbúnaði. Taldi ég þig hauk í horni þar sem andstaða þín við samskonar áþján í sjávarútvegi hafði þá fleytt þér inn á Alþingi. Fundur okkar var góður og kveðjuorð þín minnisstæð, en þau voru: „Þú átt mig að í þessu máli.“ En, enginn má við margnum og þrátt fyrir öflug rök mætustu fræðimanna fengust lögmenn ekki til að reyna að fá ósómanum hnekkt. Eftir um tíu ára andóf við stjórnkerfi landbúnaðarins gerðu ég og félagar mínir hlé þar á. Nú hafa þau tíðindi gerst að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska kvótakerfið í sjávarútvegi sem slíkt sé mannréttindabrot. Það kemur fáum á óvart, enda ljóst að með því var sjávarauðlindinni stolið frá þjóðinni og hún afhent útgerðum landsins til fullrar eignar sem erfist og hægt er að braska með fyrir stórfé.

Sama var gert við landbúnaðinn, nema hvað þar var ekki sjálfri auðlindinni skipt, heldur aðgengi bænda að mörkuðum og fjármagni í formi ríkisstyrkja. Í báðum tilvikum völdu ráðherrar viðmiðunarár fyrir skömmtunina og hjökkuðu svo á þessu regluverki þar til þeim virtist kvótarnir komnir í réttar hendur. Þá var öllu læst og ekki gefinn kostur á neinu aðgengi nema með því að kaupa þýfið af hinum nýju eigendum. Af þessu leiddi að fjölmargir starfandi bændur og sjómenn lentu að meira eða minna leyti utan kerfis. Niðurstaðan í mörgum tilfellum: Nýbyggð eyðibýli í sveitum og hljóð sjávarþorp.

Ekki koma á óvart hrokafull viðbrögð forystu LÍÚ sem kallar snuprur SÞ í garð íslenskra stjórnvalda lögfræðiálit sem íslensk stjórnvöld séu óbundin af og segir hreint út að það skuli hundsa af því að kvótakerfið sé forsenda arðvænlegra veiða og verndunar fiskistofna. Lögfræðielíta SÞ hafi ekkert vit þar á.

Samtök útgerðarmanna og bænda hvöttu stjórnvöld til að ganga sem harðast fram í þessum afbrotum og eiga það sammerkt að kæra sig kollótt um hvort þau sjálf eða stjórnvöld brjóta mannréttindi á félagsmönnum sínum,

En nú er runnin upp mikil tíð því svo vel vill til að þú, andspyrnumaður kvótakerfanna, ert orðinn ráðherra þeirra beggja. Engin rök eða hagsmunir geta réttlætt kvótakerfi sem brýtur gegn mannréttindum. Því er ljóst að nú skortir þig hvorki vopn né vilja.

Nú þarf að ná saman einvala liði góðra manna til að yfirfara stöðuna og brjóta nýjar brautir með það markmið að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar til sjós og lands verði komið til hennar aftur. Þetta er mikið og vandasamt verk ef vel á að takast og við hæfi að ég kveðji þig nú með orðum þínum forðum: „Þú átt mig að í þessu máli.“ Vertu sæll, Einar.

Höfundur er fyrrum sjómaður, bóndi og formaður Rastar, samtaka um eflingu byggðar á Íslandi.