VONSKUVEÐUR var á Norðurlandi eystra í gærkvöldi. Víkurskarði var lokað sökum slæms færis og almennt einkenndust aðstæður á vegum af hálku og snjóþekju. Flughált var frá Þórshöfn og áleiðis að Raufarhöfn og óveður á milli Vopnafjarðar og Raufarhafnar.

VONSKUVEÐUR var á Norðurlandi eystra í gærkvöldi. Víkurskarði var lokað sökum slæms færis og almennt einkenndust aðstæður á vegum af hálku og snjóþekju.

Flughált var frá Þórshöfn og áleiðis að Raufarhöfn og óveður á milli Vopnafjarðar og Raufarhafnar. Stórhríð var á Tjörnesi og í kringum Húsavík. Þegar Morgunblaðið hafði samband við björgunarsveitir á Raufarhöfn og Þórshöfn hafði lítið verið um útköll en þó voru björgunarsveitarmenn við því búnir að þurfa að aðstoða vegfarendur ef einhverjir væru. Einum ökumanni var hjálpað við að losa bíl sinn og vitað var að annar hafði þurft að skilja bíl sinn eftir í vegarkanti en sá hafði fengið far til byggða. Nokkuð hefur verið um útköll björgunarsveita á þessum slóðum í vikunni.

Þótt ofankoman væri ekki mikil þá snjóaði töluvert í gærdag og var því nokkuð af lausum snjó sem skerti skyggni í rokinu. Lögreglan á Húsavík aðstoðaði vegfarendur innanbæjar í gær við að komast leiðar sinnar en þar bundu menn vonir við það í gærkvöldi að fólk hefði vit á að halda sig innandyra.