Hefurðu hitt þennan Bobba?“ gall í einum 8 ára snáða á skákæfingu síðastliðinn þriðjudag, „Bobba Fischer?

Hefurðu hitt þennan Bobba?“ gall í einum 8 ára snáða á skákæfingu síðastliðinn þriðjudag, „Bobba Fischer?“ Ég hugsaði með mér að þetta væri það sem ég ætti í raun að vera að gera allan ársins hring – það væri gagn í því, vit og gleði að kenna og tefla skák.

„Þessi Bobbi, einn almesti snillingur hinna 64 reita, dó 64 ára að aldri í Reykjavík tveimur dögum síðar. Hann lést á sextugsafmæli Davíðs Oddssonar, sem í utanríkisráðherratíð sinni hafði um það pólitíska forystu að Fischer væri veitt skjól hér á Íslandi. Einvalalið ólíkra einstaklinga hér heima hafði haldið baráttunni fyrir frelsun Fischers gangandi vikum og mánuðum saman. Embættismenn fóru á taugum í málinu, aðrir hikuðu eða viku sér undan, en Davíð tók af skarið. Sæmi og Bobby féllust í faðma eftir 33 ára aðskilnað.

Fischer var einn magnaðasti snillingur sem skáklistin hefur átt. Innsæi hans, skarpskyggni, frumleika, vinnusemi, ástríðu og afburðahæfileika gat enginn dregið í efa. Hann tefldi allar skákir til vinnings enda var óbilandi sigurvilji hans höfuðeinkenni. Bobby Fischer var fæddur til að tefla.

Fischer var barn kalda stríðsins og leit stoltur á það sem sitt hlutverk að hnekkja á einokunarvaldi Sovétríkjanna yfir skáklistinni. Á margan hátt uppfyllti Fischer goðsögnina um ameríska drauminn: Einstaklingurinn sem berst einn gegn kerfinu og yfirbugar stórveldi skriffinnskunnar af eigin rammleik, hugfengi og frumleik. Hann var Öskubuska hins vestræna skákheims í kalda stríðinu – sá sem sigraði vélina sem öllum virtist ósigrandi. Með afrekum sínum færði hann skáklíf Vesturlanda og atvinnumennsku á langtum hærra plan en það hafði áður verið og lagði grunninn að nútímalegri vinnubrögðum.

Það fór enda þannig að þegar Fischer sneri baki við skákinni þá sneri hann baki við inntaki lífs síns. Þegar listin sem blés sál hans lífi hvarf úr lífi hins unga og glæsilega 29 ára heimsmeistara árið 1972 hvarf Bobby Fischer inn í hugarheima sem flestum voru huldir. Einangrun varð hans hlutskipti.

Í fjölda ára var Bobby Fischer grátbeðinn um að koma aftur að skákborðinu. Hver milljónamæringurinn á fætur öðrum bauð honum gull og græna skóga fyrir að tefla. Svarið var alltaf hið sama: Nei. Svo gerðist það sem öllum kom í opna skjöldu: Fischer sneri aftur í eitt einasta sinn og tefldi við Spasskí árið 1992. Fyrir þessa endurkomu hefndist Fischer grimmilega og fangelsi varð á endanum raunin. Þeir Spasskí og Fischer hittust svo aftur í leyni árið 2006, á málþingi sem Skáksamband Íslands hélt til heiðurs Friðriki Ólafssyni. Þar urðu fagnaðarfundir og merkilegt að upplifa hið einlæga vinarþel á milli þessara gömlu andstæðinga.

Engum dylst að á síðara skeiði lífs síns var Bobby Fischer þjökuð sál. Fischer afneitaði föðurlandi sínu, móður sinni, vinum sínum, trú sinni, köllun sinni og ástríðu. Hann var þar sjálfum sér verstur og úthýsti því sem stóð honum næst, sjálfskipaður útlagi eigin hamingju. Fischer svipar þannig til sumra annarra jöfra mannkynssögunnar á sviði lista og vísinda, hverra dyggasti félagi var snilli og innblástur en hvorki hamingja né blessun í mannlegu samfélagi, hvað þá hugarró.

Ýmis ummæli Fischers og yfirlýsingar í seinni tíð eru andstyggilegar og óverjandi og bera huga einangrunar og ranghugmynda vitni. En hann var um leið ljúfur Ameríkani í fari og háttum sem sást á götum Reykjavíkur eins og vinalegur afi á vappi um bæinn, bankandi upp á hjá Braga bóksala á Klapparstígnum.

Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið 2008 er nú handan við hornið og fremstu skákmeistarar heims hvaðanæva úr heiminum munu enn á ný flykkjast til Reykjavíkur. Það er við hæfi að nú verði reynt að bjóða sérstaklega til leiks eldri heiðursmönnum á borð við Spasskí, Portisch, Hort og fleiri sem Fischer atti kappi við á ferlinum. Þannig gætum við minnst skáksigra hans með eftirminnilegum hætti.

Margir skákunnendur, fjölmargir, um allan heim, höfðu í vonbrigðum sínum og sorg yfir óforsvaranlegum hatursyfirlýsingum, vænisýki og ranghugmyndum Fischers á seinni árum snúið við honum baki sem manneskju. Margir skákmeistarar voru í raun djúpt særðir yfir framkomu hans, sárir, hneykslaðir og reiðir. Það er skiljanlegt. En þótt hatursyfirlýsingar Fischers verði alltaf óverjandi er ég þakklát fyrir það að „þessi Bobbi“ skyldi boðinn velkominn til Íslands þegar aðrir sneru við honum baki og honum var ætlað að ljúka lífinu í fangelsi. Það er vonandi að ástríða hans og guðs gjöf á sviði skáklistarinnar, blómi hans, innblástur og sköpun fái að lifa í minningunni, burtséð frá hliðunum svörtu og sársaukafullu.

HLJÓÐVARP mbl.is
Hljóðpistlar Morgunblaðsins
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir les pistilinn