[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eitt af meginmarkmiðum Vegagerðarinnar er hagkvæm uppbygging og rekstur vegakerfisins. Iðulega þegar um nýframkvæmdir er að ræða leggur Vegagerðin fram nokkra kosti til athugunar og leggur fram mat á kostunum.

Eitt af meginmarkmiðum Vegagerðarinnar er hagkvæm uppbygging og rekstur vegakerfisins. Iðulega þegar um nýframkvæmdir er að ræða leggur Vegagerðin fram nokkra kosti til athugunar og leggur fram mat á kostunum. Að því loknu gerir Vegagerðin tillögu um kost til framkvæmda.

Nauðsynlegt er umræðunnar vegna að árétta nokkur atriði. Vegagerðin hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa skoðun á því hvaða leið sé best. Það er eigi að síður hlutverk Vegagerðarinnar að leggja mat á kostina. Vegagerðin hefur einnig sagt að það sé komið að stjórnmálamönnunum að taka ákvörðun. Það getur ekki verið erfiðara að taka ákvörðun með allar upplýsingar við höndina, þar með mat Vegagerðarinnar. Það hjálpar ekki umræðunni að segja að svart sé hvítt og hvítt sé svart.

Eyjalausnin betri

Bent hefur verið á að Sundabraut er ekki einkamál Reykvíkinga. Gerð hennar og lega skiptir máli fyrir höfuðborgarsvæðið allt og fyrir landsbyggðina. Með hliðsjón af því er það mat Vegagerðarinnar að eyjalausnin sé betri kostur en jarðgöng, m.a. vegna þess að eyjalausnin dreifir umferð betur. Jarðgöng leiða umferð frekar vestur í bæ meðan eyjalausnin leiðir hana einnig til suðurs um Sæbraut og síðan Reykjanesbrautina. Færri færu þannig um Sundabraut í jarðgöngum en um innri leiðina og það drægi minna úr álagi á Ártúnsbrekkuna. Með eyjalausninni styttast einnig vegalengdir á milli staða í meira mæli en með jarðgöngum og því minnkar heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu.

Alrangar ásakanir

Því hefur einnig verið haldið fram að Vegagerðin ofmeti kostnað við jarðgöng en vanmeti kostnaðinn á innri leiðinni. Þetta er alrangt. Miðað er við norska staðla og Evrópureglur sem ekki verður vikist undan. Væri miðað við sænska staðla myndi kostnaðurinn með vegtengingum reiknast 27 milljarðar króna eða 12 milljörðum króna meiri en við eyjaleiðina. Kostnaður við eyjaleiðina sem er metinn á 15 milljarða króna hefur verið uppfærður til samræmis við jarðgöngin.

Mengunin hverfur ekki

Rétt er enn að árétta að rekstrarkostnaður ganga er miklu meiri en af eyjalausninni og munar þar líklega að minnsta kosti 200 milljónum króna árlega.

Mengun af umferðinni hverfur ekki við að hún fari um jarðgöng. Menguninni þarf að dæla upp á yfirborðið. Hugsanlega mætti fara sömu leið og víða erlendis þar sem mengað loft er hreinsað. Hvað slíkt myndi kosta hefur ekki verið reiknað út né heldur skoðað hvar hægt væri að koma slíku mannvirki fyrir.

Að öllu samanlögðu mælir Vegagerðin með því að fara innri leiðina.

Höfundur er upplýsingafulltrúi

Vegagerðarinnar