Lofuð í hástert Fas -- Ite, Maledicti, In Ignem Aeternum kom út í fyrra og hefur verið lofuð í hástert af þungarokksfræðingum og hefur platan reyndar náð út fyrir þann markhóp.
Lofuð í hástert Fas -- Ite, Maledicti, In Ignem Aeternum kom út í fyrra og hefur verið lofuð í hástert af þungarokksfræðingum og hefur platan reyndar náð út fyrir þann markhóp.
Rokkspekúlantar í þyngri kantinum eru velflestir á því að franska svartþungarokkssveitin Deathspell Omega hafi landað bestu plötu síðasta árs.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Það er tímanna tákn, og sönnun á tilvist heimsþorpsins, hvernig stefnur og straumar svartþungarokksins hafa verið hin síðastliðnu ár. Gerjunin er líklega hvað mest á vesturströnd Bandaríkjanna en sveitir þaðan hafa mikið til horft til Frakklands sem veitu hugmynda. Stefnan sjálf er hins vegar upprunnin á Norðurlöndunum.

Frakkar, ásamt Spánverjum og Ítölum, hafa hingað til verið taldir gersneyddir þeim hæfileika að geta rokkað eitthvað af viti (þá má líka alveg henda Dönum inn í þennan flokk). Það er hins vegar eins og vatnsþrærnar í Frankaríki séu farnar að mengast eitthvað, sjá t.d. síðþungarokkssveitina Gojira, sem átti meistarastykkið From Mars To Sirius árið 2005 (og heimsótti landann á Airwaves haustið 2006, sællar minningar). Og nú, þó það hljómi ótrúlega, þessi svartþungarokksbylgja þar sem í forvígi eru jafn ólíkar sveitir og DeathSpell Omega, Blut Aus Nord og Alcest.

Getgátur

Það sem sker frönsku svartþungarokkarana nokkuð frá öðrum sambærilegum „senum“ er mikil tilraunagleði. Þó að svartþungarokkið, hin síðustu ár, hafi verið opnasta þungarokksstefnan að þessu leytinu til eru Frakkarnir að taka þetta upp á næsta stig og blanda öllum andsk... út í seyðinn, djassi, þjóðlagatónlist, sveimi, raftónlist, síðrokki, nefndu það bara. Eitt einkenni Frakkanna er einnig að það er ekki mikið „rokk" í hljómsveitunum þannig. Þetta er semsagt ekki sveitt, brennivínsinnblásið „Rolling Stone“ sveiflurokk að hætti Immortal (þegar sú gæðasveit er á sviði a.m.k) heldur mætti frekar lýsa þessu sem einskonar innhverfu svefnherbergis-svartþungarokki.

Saga Deatshpell Omega er allsérstök. Og þrátt fyrir þetta mikla lof frá fjölmiðlungum og samherjum má geta þess að hljómsveitin er ekki með vefsíðu né myspace síðu, nokkuð sem telst eiginlega ótrúlegt á þessum tæknivæddu, markaðsbundnu tímum. Auk þess veit enginn hver er í hljómsveitinni, meðlimir eru huldumenn, þó að ýmsar getgátur, mistraustar, séu uppi um hver skipar hana.

Þetta háttalag, að sveipa sveitina dulúð og fjarlæga allt „efnislegt“ þannig að tónlistin standi ein eftir, er að nokkru leyti samkvæmt hinni svokölluðu „necro cult“ hefð. Tónlist Deathspell Omega er reyndar ekki samkvæmt henni lengur, en necro cult spekin gengur út á að færa svartþungarokkið aftur nær rótunum, þegar upphafssveitir eins og Mayhem, Burzum og Darkthrone gengu lausar. Allt gengur út á að hafa hljóm sem hráastan og umslagshönnun sem minimalískasta. Helst vilja þær sveitir sem nekróköltið stunda gefa tónlistina eingöngu út á kassettum og í sem fæstum eintökum þá og slík hreyfing er starfandi, þó lítil sé.

Í upphafi var tónlist Deathspell Omega samkvæmt þessari hefð, fyrstu plöturnar drógu dám af Darkthrone c.a. Transilvanian Hunger en frá og með plötunni Si Monumentum Requires , Circumspice (2004) breytist sveitin hins vegar mikið.

Erfið dreifing

Hljómur var nú til muna betri (nokkuð sem hefur pirrað margan trúfastan svartþungarokkarann) og verkið fyrsti hluti þríleiks sem veltir fyrir sér sambandi mannsins við Guð og Satan. Textar því útúrspekúleraðir og táknfræðin í kringum plötuna svo gott sem sligandi. Talið er að leiðtogi sveitarinnar sé Hasjarl nokkur (áður gítarleikari í sveitinni Hirilorn) og mun hann vera stofnandi Norma Evangelium Diaboli, satanískra svartþungarokkssamtaka sem gera út frá borginni Poitiers. Fas – Ite, Maledicti, In Ignem Aeternum , önnur plata þríleiksins, kom svo út í fyrra og hefur verið lofuð í hástert af þungarokksfræðingum og hefur platan reyndar náð út fyrir þann markhóp og áhugamenn um tilraunarokk almennt eru að missa sig yfir plötunni. Dreifing á plötum Deathspell Omega hefur verið upp og ofan eins og nærri má geta en nýverið tók Southern Lord, útgáfa hins mikilhæfa Stephen O'Malley (Sunn O) það að sér að koma henni út í Bandaríkjunum.

Ekkert er hins vegar vitað um hvenær Deathspell Omega hyggst ljúka þríleiknum.