Kristján Andrésson
Kristján Andrésson
KRISTJÁN Andrésson verður þjálfari sænska handknattleiksliðsins Guif til vorsins 2010.

KRISTJÁN Andrésson verður þjálfari sænska handknattleiksliðsins Guif til vorsins 2010. Framkvæmdastjóri félagsins, Pontus Järleskog staðfesti við dagblaðið Eskilstuna-Kurier í gær að munnlegt samkomulag hefði tekist við þá Kristján og aðstoðarþjálfarann Janne Ekman og aðeins væri eftir að ganga formlega frá samningunum við þá.

„Það hefur verið forgangsverkefni hjá okkur að ganga frá málum við þjálfarana. Nú þegar það er nokkurn veginn í höfn munum við leggja dag og nótt við að semja við flesta leikmanna okkar áður en deildin byrjar á ný þann 30. janúar,“ sagði Järleskog við blaðið.

Kristján tók við liði Guif frá Eskilstuna síðasta sumar en hann hafði þá leikið með liðinu í sex ár. Hann er aðeins 27 ára gamall en varð að leggja skóna á hilluna eftir þrálát meiðsli. Síðasta vetur spilaði Kristján ekkert og var þá aðstoðarþjálfari liðsins. Hann var í íslenska landsliðinu sem lék á Ólympíuleikunum í Aþenu sumarið 2004.

Liði Guif hefur gengið mjög vel eftir því sem liðið hefur á tímabilið og Kristján var valinn þjálfari desembermánaðar í sænsku úrvalsdeildinni en Guif vann alla fimm leiki sína í jólamánuðinum. Liðið er nú í sjötta sæti af fjórtán liðum í deildinni og er aðeins tveimur stigum á eftir Sävehof sem er í þriðja sætinu, en átta efstu komast í úrslitakeppnina um sænska meistaratitilinn.

Haukur Andrésson, tvítugur bróðir Kristjáns, er í leikmannahópi Guif og faðir þeirra, Andrés Kristjánsson, landsliðsmaður og línumaður úr Haukum, lék með liðinu á árum áður.