KJARTAN Henry Finnbogason mun leika með norska 1. deildar liðinu Sandefjord á næstu leiktíð en hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið.
KJARTAN Henry Finnbogason mun leika með norska 1. deildar liðinu Sandefjord á næstu leiktíð en hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið. Í norska staðarblaðinu Sandefjord Blad segir Tor Thodesen, þjálfari Sandefjord, að Kjartan sé spennandi leikmaður sem búi yfir miklum hraða og tækni. „Kjartan er með eiginleika sem við höfum ekki haft lengi í okkar liði,“ segir Thodesen m.a. en hann hrósar íslenska leikmanninum fyrir góða skallatækni. Kjartan er 21 árs og hefur hann verið á mála hjá skoska liðinu Celtic frá því hann var 18 ára. Hann var lánaður til sænska 1. deildar liðsins Åtvidaberg á síðustu leiktíð og þar lék hann 7 leiki og skoraði 5 mörk. Thodesen segir að félagið verði að greiða Celtic nokkuð háar uppeldisbætur fyrir leikmanninn. Sandefjord fékk aðeins 16 stig á síðustu leiktíð í úrvalsdeild en Start var þar fyrir ofan með 26 stig. Þrátt fyrir afleitt gengi liðsins í efstu deild var gerður nýr samningur við þjálfarann Thodesen og fær hann tækifæri til þess að koma liðinu í efstu deild á ný.