Fjölskyldan stækkar Þær Sylvía og Karen voru ánægðar með að sjá mynd af nýrri lítilli systur sinni í gær en hinn nýbakaði faðir, Styrmir Guðmundsson, var ekki síður glaður eftir að hafa séð dóttur sína á fæðingardeildinni.
Fjölskyldan stækkar Þær Sylvía og Karen voru ánægðar með að sjá mynd af nýrri lítilli systur sinni í gær en hinn nýbakaði faðir, Styrmir Guðmundsson, var ekki síður glaður eftir að hafa séð dóttur sína á fæðingardeildinni. — Árvakur/Ómar
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur s unna@mbl.is ÞAÐ VAR handagangur í öskjunni á kvennadeild Landspítalans frá miðnætti á miðvikudag til miðnættis á fimmtudag en þá fæddust hvorki fleiri né færri en tuttugu börn sem er metfjöldi á einum sólarhring.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

s unna@mbl.is

ÞAÐ VAR handagangur í öskjunni á kvennadeild Landspítalans frá miðnætti á miðvikudag til miðnættis á fimmtudag en þá fæddust hvorki fleiri né færri en tuttugu börn sem er metfjöldi á einum sólarhring. Að meðaltali fæðast um 8-9 börn á sólarhring og var því um sannkallaða sprengingu að ræða. Gamla metið, sem er nokkurra ára gamalt, var nítján börn.

„Þetta gekk allt saman mjög vel,“ segir Hildur Harðardóttir, sviðsstjóri lækninga á kvennasviði LSH. Hún segir flestar fæðingarnar hafa gengið eðlilega fyrir sig en í nokkrum tilfellum hafi þurft að beita keisaraskurði til að koma börnunum í heiminn. Flestar konurnar fóru heim í gær um sólarhring eftir fæðingu en aðrar þurftu að dvelja lengur á sjúkrahúsinu.

„Það var hvert einasta rými á fæðingarganginum nýtt og gott betur en það því við þurftum að grípa til þess ráðs að nota herbergi sem ekki eru fæðingarstofur,“ segir Hildur.

Fjórar ljósmæður eru alla jafna á vakt í einu en það dugði ekki til og því þurfti að kalla út aukinn mannskap.

Hildur segir að í gærdag hafi einnig verið mikið að gera á deildinni en hefur engar haldbærar skýringar á því hvers vegna svo margar fæðingar verða á svo stuttum tíma.

„Þetta kemur alltaf í bylgjum, rétt eins og flóð og fjara,“ segir Hildur og bætir við að ómögulegt sé að spá nákvæmlega fyrir um hversu margar konur komi inn á degi hverjum til að fæða. „Þegar það er lítið að gera hugsum við með okkur að það sé líklega aðeins lognið á undan storminum. Ég hef enga kenningu um hvernig standi á þessu, hvort það er loftþrýstingurinn eða veðurfarið almennt sem hefur áhrif.“

Í hnotskurn
» Að meðaltali fæðast 8-9 börn á degi hverjum á LSH.
» 3.128 börn fæddust á kvennadeild Landspítala á síðasta ári. Það er einu barni færra en þegar mest var, árið 1993.