HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness dæmdi í gær karlmann í 4 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dætrum tveggja systra sinna. Var önnur stúlkan 5 ára þegar brotin voru framin og hin á aldrinum 3 til 11 ára. Jafnframt var maðurinn dæmdur fyrir vörslu barnakláms.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness dæmdi í gær karlmann í 4 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dætrum tveggja systra sinna. Var önnur stúlkan 5 ára þegar brotin voru framin og hin á aldrinum 3 til 11 ára. Jafnframt var maðurinn dæmdur fyrir vörslu barnakláms. Segir dómurinn að atferli mannsins sé svívirðilegt og hann eigi sér engar málsbætur.

Brotin gegn annarri stúlkunni voru framin á tímabilinu 1994-2001 en maðurinn lét stúlkuna snerta kynfæri sín og hafa við sig munnmök í nokkur hundruð skipti. Hann var einnig fundinn sekur um að klippa andlit stúlkunnar úr mynd og skeyta því við klámmyndir sem hann hafði sótt á netið. Á tveggja ára tímabili bjó stúlkan í sama húsnæði og maðurinn og braut hann þá á henni daglega. Brotin gegn hinni stúlkunni voru framin á árunum 1993 og 1994. Þegar móðir fyrri stúlkunnar hefði staðið manninn að verki við að misnota dóttur sína og haft í hótunum við hann hlýddi hann fyrirmælum hennar en hóf að misnota hina stúlkuna. Voru brotin þá framin á heimili mannsins eða foreldra telpnanna. Dómara þótti það vera til þyngingar á refsingu ákærða að hann fékk aðra stúlkuna til munnmaka og annarrar misnotkunar með því að gefa henni spil, sælgæti og síðast peninga og svo með því að leyfa henni afnot af tölvu og sjónvarpi.

Maðurinn hóf að brjóta á annarri stúlkunni áður en hann varð 15 ára og var því ekki sakhæfur varðandi öll brotin. Var því litið til þess að maðurinn var sjálfur ungur að árum er hann framdi brotin og var samvinnufús við rannsókn málsins. Það réttlæti þó ekki verknað hans að hann hefði verið í vímuefnaneyslu eða að hann hefði misst móður sína við upphaf brotatímabilsins. Maðurinn var dæmdur til að greiða annarri stúlkunni 1,5 milljónir króna í bætur og hinni 500 þúsund. Þá var hann dæmdur til að greiða sakarkostnað, tæplega 1,2 milljónir króna.

Í hnotskurn
» Sjálfur var maðurinn yngri en 15 ára þegar hann hóf brotin.
» Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.