Ólafur Stefánsson
Ólafur Stefánsson
Eftir Ívar Benediktsson í Þrándheimi iben@mbl.is „ÉG lenti í smátjóni núna og missi líklega af tveimur leikjum.

Eftir Ívar Benediktsson í Þrándheimi

iben@mbl.is

„ÉG lenti í smátjóni núna og missi líklega af tveimur leikjum. Tognun í aftanverðu hægra læri tók sig upp strax í fyrstu sókn og þetta eru meiðsli sem erfitt er að glíma við,“ sagði Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, eftir æfingu landsliðsins í Þrándheimi um hádegið í gær.

Ólafur verður ekki með gegn Slóvakíu í dag og væntanlega ekki heldur þegar landsliðið mætir Frökkum síðdegis á morgun á Evrópumeistaramótinu í handknattleik.

„Þetta er fúlt en ég ætla ekki að trufla liðið mitt með því. Það er mjög gott og nú hljóta aðrir leikmenn að sjá tækifæri og nýta það í næstu tveimur leikjum. Menn eiga að minnsta kosti að hugsa þannig.

Það eru allir leikmenn fúlir eftir leikinn gegn Svíum og koma þar af leiðandi brjálaðir í leikinn við Slóvaka. Nú um stundir verð ég að vera jákvæður og hvetja félaga mína til dáða,“ segir Ólafur sem telur að Slóvakar hafi baráttuglatt og sterkt lið.

„Öll liðin í keppninni eru sterk og eru ekki með í mótinu að ástæðulausu. Ég er alveg viss um það verður allt annað lið sem mætir til leiks hjá okkur en gegn Svíum í gær. Liðið verður brjálað. Við erum alltaf þannig að við verðum við lenda í áföllum til þess að verða brjálaðir. Sigurlíkur okkar eru 99% og síðan kemur röðin að leiknum gegn Frökkum, en áður en að honum kemur verðum við að einbeita okkur að næsta verkefni, sem er leikurinn við Slóvaka,“ sagði Ólafur Stefánsson.