Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is BORGARRÁÐ styður samhljóða að Sundabraut verði lögð í göngum. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík og formaður samgöngunefndar Alþingis, er sama sinnis. Dagur B.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

BORGARRÁÐ styður samhljóða að Sundabraut verði lögð í göngum. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík og formaður samgöngunefndar Alþingis, er sama sinnis. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undrast áherslu Vegagerðarinnar á svonefnda eyjalausn, því vafamál sé hvort hún sé fær, en bæði Dagur og Steinunn Valdís segja að ekki sé allt sem sýnist í sambandi við kostnaðaráætlun þeirrar lausnar. Beðið er ákvörðunar samgönguráðherra.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir að mál Sundabrautar verði tekið fyrir hjá nefndinni innan skamms. Hugmyndin sé að fá kynningu á stöðu mála frá Vegagerðinni og samgönguráðuneytinu og kalla á ýmsa hagsmunaaðila. Hins vegar hafi hún ekki legið á skoðun sinni og afstaða hennar sé skýr: „Ég tel langskynsamlegustu lausnina, bæði út frá skipulagi, umferð og umhverfi, að fara Sundabraut í göngum á ystu leið.“

Í skýrslu starfshóps um Sundabraut kemur fram að heildarkostnaður við svokallaða eyjalausn sé um 15 milljarðar en tæplega 24 milljarðar við jarðgöng, miðað við verðlag í október 2007. Samkvæmt samgönguáætlun 2007-2010 eiga 8 milljarðar af söluandvirði Símans að fara í Sundabraut. Í grein í Morgunblaðinu fyrir um tveimur árum sagði Sturla Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra, að kostnaðurinn við Sundabraut lægi ekki fyrir en reikna mætti með 18 til 19 milljörðum hið minnsta og fjármögnun væri tryggð.

Þjóðvegur á kostnað ríkisins

Dagur og Steinunn Valdís segja að þó að Vegagerðin leggi yfirleitt til ódýrustu leiðina hafi hún lent í ágreiningi um legu ýmissa vega og enn hafi ekki komið til þess að mismunurinn væri greiddur af viðkomandi sveitarfélagi, þó að farin hafi verið önnur leið en Vegagerðin hafi valið í upphafi, samanber nýlegar deilur í Garðabæ. Steinunn Valdís segir réttlætanlegt að fara gangaleiðina þó að hún sé dýrari en eyjaleiðin, einfaldlega vegna þess að hún sé svo miklu, miklu betri.

Dagur tekur í sama streng og segist ekki hafa heyrt að taka ætti upp sérstaka Reykjavíkurreglu í því sambandi. „Það kæmi mér á óvart ef menn færu að brydda upp á einhverri slíkri umræðu í fyrsta sinn.“