150 milljarðar Hank Paulson fjármálaráðherra svarar spurningum fréttamanna um hvernig örva eigi hagkerfið í Bandaríkjunum.
150 milljarðar Hank Paulson fjármálaráðherra svarar spurningum fréttamanna um hvernig örva eigi hagkerfið í Bandaríkjunum. — Reuters
Eftir Guðmund Sverri Þór sverrirth@mbl.is ÓTTINN við að efnahagsleg niðursveifla sé framundan í Bandaríkjunum vex og nú er svo komið að George W.

Eftir Guðmund Sverri Þór

sverrirth@mbl.is

ÓTTINN við að efnahagsleg niðursveifla sé framundan í Bandaríkjunum vex og nú er svo komið að George W. Bush forseti hefur tilkynnt að hann muni leita leiða til þess að ná samkomulagi við báðar deildir þingsins, þar sem Demókrataflokkurinn fer með völd, um aðgerðir til þess að örva hagkerfið. Bush hyggst dæla allt að 150 milljörðum dala inn í hagkerfið og sagði það hafa forgang í efnahagsmálum.

Bush hefur falið fjármálaráðherra sínum, Hank Paulson, að sníða í samstarfi við leiðtoga demókrata á þingi aðgerðaáætlun og því liggur ekki fyrir hverjar áherslurnar verða en ef marka má orð forsetans má vænta þess að skattar lækki, hjá bæði neytendum og fyrirtækjum. Bloomberg hefur eftir heimildum að meðal hugmynda Bush sé 800 dala skattaafsláttur fyrir einstaklinga og 1.600 dala afsláttur fyrir heimili.

Samkvæmt frétt Wall Street Journal eru stóru flokkarnir vestanhafs báðir þeirrar skoðunar að grípa þurfi til aðgerða til þess að afstýra niðursveiflu en vísbendingar um að hagkerfið gæti verið á leið inn í slíka verða æ fleiri. Nýjustu dæmin eru skarpur samdráttur iðnframleiðslu og aukið atvinnuleysi. Atvinnuleysi var í desember 5% og jókst um 0,3 prósentustig á milli mánaða. Atvinnuleysi vestanhafs hefur ekki verið meira í tvö ár.

Á mánaðarlegum fundi sínum með þinginu fyrr í vikunni sagði Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, að framundan væri hægur hagvöxtur á þessu ári þótt ekki vildi hann – enn – spá fyrir um niðursveiflu. Bernanke sagði að 50-150 milljarða dala örvun myndi hafa mikilvæg áhrif á hagvaxtarstigið. Það væri ekki sýndarmennska. Hann minnti jafnframt á mikilvægi þess að slík örvun væri úthugsuð og notuð á réttan hátt.

Í hnotskurn
» Hagfræðingar skilgreina niðursveiflu (e. recession) sem samdrátt (neikvæðan hagvöxt) í hagkerfinu í tvo samfellda ársfjórðunga.
» Þróunin á hlutabréfamörkuðum var misjöfn í gær. Vísitölur hækkuðu almennt í Asíu en lækkuðu í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Í Bretlandi var FTSE nánast óbreytt.