„Fagmaður er skemmtilegt orð og svona pínu loðið. Það gefur til kynna að maður beri sig faglega að og ég reyni að gera það við hvaðeina sem ég geri,“ segir Steinar Júlíusson en hann er skráður fagmaður í Símaskrá.

„Fagmaður er skemmtilegt orð og svona pínu loðið. Það gefur til kynna að maður beri sig faglega að og ég reyni að gera það við hvaðeina sem ég geri,“ segir Steinar Júlíusson en hann er skráður fagmaður í Símaskrá. Samtals eru fjórir fagmenn skráðir í Símaskrá án þess að fagmennskan sé skilgreind nánar.

Að sögn Guðrúnar Maríu Guðmundsdóttur, ritstjóra Símaskrárinnar, er alltaf eitthvað um óvenjulegar óskir um starfsheiti þó þau séu aðallega hugsuð sem aðgreining frá alnöfnum. Frestur til að breyta skráningu rennur út 31. janúar

8 húsbændur og 5 hugsuðir

„Einhverra hluta vegna eru karlmenn duglegri við að koma með óskir um óvenjuleg starfsheiti og ræðum við þau hvert fyrir sig áður en við samþykkjum eða höfnum óskum viðskiptavina okkar,“ segir hún en bætir því við að almenn skynsemi ráði hjá því hvað er samþykkt.

Meðal þeirra starfsheita sem óskað hefur verið eftir upp á síðkastið en hefur verið hafnað eru atvinnulandamæravörður, kenningasmiður, frábær, fallegur, ofursti í counter-strike, súkkulaðidrengur og listastelpa. Auk þess hefur verið hafnað ósk um skráningu sem ljónatemjari en einn er skráður í Símaskrá sem fyrrverandi ljónatemjari. Þá má finna þar einn fyrrverandi bréfbera og átta húsbændur. Auk þess eru þar skráðir allir jólasveinarnir en fimm hugsuðir. Þá eru 13 sérfræðingar í Símaskránni. Að sögn Guðrúnar er líka töluvert um að karlmenn sæki um að vera skráðir sem húsmæður. „Einn karlmaður er skráður húsmóðir hjá okkur, hann vildi alls ekki vera húsbóndi,“ segir hún.

Félag fagmanna

Steinar Júlíusson fagmaður er útskrifaður úr Listaháskóla Íslands sem grafískur hönnuður. „Alls staðar þar sem ég hef unnið er krafist faglegra vinnubragða,“ segir hann. Hann átti ekki í vandræðum með að fá starfsheitið skráð en kannast ekki við aðra fagmenn í skránni. „Það er kannski spurning um að hóa þeim saman og stofna félag fagmanna,“ segir Steinar.

fifa@24stundir.is