Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is BRYNJA, Hússjóður Öryrkjabandalags Íslands, er sjálfseignarstofnun sem sett var á fót á árunum 1965-66. Stofnendur voru ÖBÍ og sex styrkarfélög fatlaðra og sjúkra.

Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

BRYNJA, Hússjóður Öryrkjabandalags Íslands, er sjálfseignarstofnun sem sett var á fót á árunum 1965-66. Stofnendur voru ÖBÍ og sex styrkarfélög fatlaðra og sjúkra. Fyrstu eignir hans voru Hátún 10-10b, og Fannborg 1 í Kópavogi, sem byggð voru á 7. og 8. áratugnum. Nýlega hefur sjóðurinn selt Fannborg 1, sem í eru 43 íbúðir. Engu að síður verða leigjendur hans þar áfram næstu tvö árin þar til gildandi samningar renna út. Eftir þá sölu á hann 640 íbúðir vítt og breitt um landið. Í eignaskrá kemur fram að tæplega 500 eru í Reykjavík, 43 á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur og 102 utan höfuðborgarsvæðisins.

Á landsbyggðinni eru flestar íbúðir sjóðsins staðsettar á Akureyri (29) og Selfossi (18), en almennt miðast kaup við eftirspurn eftir félagslegu húsnæði á hverjum stað.

Breytingar undanfarinn áratug

Hin síðari ár hefur stefna sjóðsins breyst og hann reynt að dreifa eignum sínum. Ákveðið var að byggja nýjar íbúðir við Sléttuveg 7 og 9 í Reykjavík fyrir um tíu árum, en íbúðir þar eru færri og stærri en í Hátúni. Síðan þá hafa aðallega verið keyptar stakar íbúðir eða íbúðasambýli, þar sem 4-6 einstaklingar búa.

Í mars árið 2005 gengu í gildi skriflegar verklagsreglur um eignaumsýslu. Í þeim koma fram markmið um stærð og gæði íbúða, en ljóst er að nokkuð er í að þau náist. T.a.m. segir þar að einstaklingsíbúðir skuli vera að lágmarki 50 fermetrar. Í eignaskrá kemur hins vegar fram að 32 stakar íbúðir sjóðsins eru undir 49 fermetrum, að frátöldum íbúðunum í Hátúni 10-10b, sem eru á bilinu 28-60 fermetrar.

Átak í viðhaldi á fasteignum sjóðsins hefur verið í gangi undanfarin átta ár, og er gert ráð fyrir að því ljúki á næsta ári. Á þeim tíma hefur um einum milljarði króna verið varið í viðhald. Einnig hefur um tveimur milljörðum verið varið í nýtt húsnæði fyrir um 100 öryrkja á sama tíma, sem samræmast á kröfum nútímans betur.

Á síðasta ári var ákveðið að hætta nýliðun öryrkja inn í Hátún og hugmyndir kynntar um að leigja þar ófötluðum íbúðir. Einnig er unnið að því að sameina minnstu einstaklingsíbúðirnar svo að tvær litlar geri eina sem fullnægir stærðarkröfum. Mörgum kann að þykja þetta skjóta skökku við, því á sama tíma hafa verið 200-400 manns á biðlistum eftir húsnæði. Að sögn þeirra sem þekkja til varð það ofan á í forgangsröðun að sjóðurinn byði öryrkjum upp á húsnæði sem fullnægði nútímalegum kröfum.

Tekjur úr þremur áttum

Fjármögnun Brynju hefur að sögn oft verið örðug, en undanfarin ár hafa tekjur sjóðsins aðallega verið þríþættar. Leigutekjur standa straum af rekstrarkostnaði fasteignanna, en ekki stofnkostnaði og vöxtum. Árið 2006 hafði sjóðurinn 343 milljónir í leigutekjur og búast má við að þær hafi verið um 350 milljónir á síðasta ári. Þá fær hann árlega um helming af lottótekjum ÖBÍ, 80 milljónir á síðasta ári. Í þriðja og síðasta lagi hefur sjóðurinn gert samninga við félagsmálaráðuneytið um niðurgreiðslur frá ríkinu, gegn því að hann aðstoði ráðuneytið í ýmsum verkefnum. 200 milljónir króna hefur hann fengið í stofnstyrki frá ríkinu til niðurgreiðslu á leigu, auk þess sem það leigir hluta af húsnæði hans á kostnaðarverði en framleigir það öryrkjum á lægra verði. Sú niðurgreiðsla er þó hluti af fyrrnefndum leigutekjum.

Í hnotskurn
» 2006 var gerð þjónustukönnun meðal leigjenda. Könnunin náði til íbúa í Hátúni, Sléttuvegi og Fannborg, alls 182 íbúa.
» Íbúar á Sléttuvegi sýndu mesta ánægju með aðstæður sínar, en íbúar í Hátúni minnsta. Þó sögðu aðeins 6% íbúa í Hátúni frekar eða mjög slæmt að búa þar.
» 74-84% íbúa töldu sig örugg þar sem þau búa, síst í Fannborg en mest á Sléttuvegi.