— Árvakur/Kristinn Ingvarsson
Hinir árlegu styrktartónleikar krabbameinssjúkra barna, sem fara áttu fram milli jóla og nýárs, en var frestað vegna veðurs, verða haldnir næstkomandi sunnudagskvöld, þann 20. janúar, í Háskólabíói.
Hinir árlegu styrktartónleikar krabbameinssjúkra barna, sem fara áttu fram milli jóla og nýárs, en var frestað vegna veðurs, verða haldnir næstkomandi sunnudagskvöld, þann 20. janúar, í Háskólabíói. Að tónleikunum standa Bylgjan, Stöð 2, EB hljóðkerfi og Concert. Er þetta níunda árið í röð sem tónleikarnir eru haldnir og hafa í gegnum tíðina safnast yfir 22 milljónir króna. Ávallt eru það vinsælustu tónlistarmenn þjóðarinnar sem fram koma á tónleikunum og á því verður lítil breyting í ár, en þó einhver, segir Einar Bárðarson hjá Concert. „Sökum þessara skipulagsbreytinga urðu þrjár hljómsveitir frá að hverfa: Mínus, Sprengjuhöllinn og Dísella, en það kemur alltaf maður í manns stað og fengum við Pál Óskar, Jógvan og Sniglabandið til þess að fylla í skarðið.“ Einar segir einnig að nánast sé uppselt á tónleikana, sem hefjast klukkan 16.00. „Ég reikna fastlega með því. Það þurftu einhverjir sem búsettir voru erlendis að skila inn miðum sínum, en við vorum með langan biðlista og því fóru þeir fljótt út aftur.“ Við eftirgrennslan 24 stunda í gær kom í ljós að nákvæmlega einn miði var laus á midi.is og fer því hver að verða síðastur. Að sögn Einars verður ágóðinn, 2,4 milljónir króna, afhentur Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna á tónleikunum, venju samkvæmt. „ Það er alltaf jafn ánægjulegt að gefa í jafn þarft og gott málefni,“ sagði Einar. Meðal þeirra sem fram koma eru Luxor, Páll Óskar, Nylon, Bubbi Morthens, Magni & Á móti sól, Sniglabandið, Guðrún Gunnars og Friðrik Ómar, Garðar Thór Cortes, Land & synir, Jógvan, Klaufarnir, Stebbi og Eyfi, SSSÓL, Birgitta Haukdal, HARA og Ragnheiður Gröndal.