Sverrir Garðarsson
Sverrir Garðarsson
Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is PER Joar Hansen þjálfari sænska úrvalsdeildarliðsins Sundsvall er mjög spenntur að fá landsliðsmanninn Sverri Garðarsson til liðs við sig en Sverrir hefur verið við æfingar hjá liðinu í vikunni.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

PER Joar Hansen þjálfari sænska úrvalsdeildarliðsins Sundsvall er mjög spenntur að fá landsliðsmanninn Sverri Garðarsson til liðs við sig en Sverrir hefur verið við æfingar hjá liðinu í vikunni.

,,Sverrir er mjög áhugaverður leikmaður. Hann er líkamlega á sig kominn eins og víkingur og hann hefur gert það gott þann tíma sem hann hefur verið hjá okkur,“ segir Per Joar í viðtali við sænska blaðið Sundsvalls Tidning .

,,Það er spurning hvort við höfum efni á honum en við munum fara í viðræður um að fá hann,“ segir Cain Dotson framkvæmdastjóri Sundsvall við Sundsvalls Tidning en félagið samdi nýlega við Ara Frey Skúlason.

Sverrir lék stórt hlutverk með FH á síðustu leiktíð og vann sér sæti í íslenska landsliðinu og lék sinn fyrsta leik gegn Dönum á Parken í nóvember.

Sverrir sagði í samtali við Morgunblaðið að sér litist vel á aðstæður hjá Sundsavall. ,,Ég væri ekki hérna nema einhver alvara væri á bakvið þetta en það á allt eftir koma í ljós hvað verður,“ sagði Sverrir, sem er samningsbundinn FH til ársins 2009 svo Sundsvall þarf að ná samkomulagi við FH ætli félagið að fá hann í sínar raðir.

Reiknum með tilboði

,,Ég á nú svona frekar von á því að Sundsvall geri okkur tilboð í Sverri og við munum bara fara yfir stöðuna þegar það gerist. Það hefur verið gott samband á milli félaganna og við höfum fullan skilning á að Sverrir vilji reyna fyrir sér í atvinnumennskunni þó svo að það verði slæmt að missa hann ef því verður,“ sagði Pétur Ó. Stephensen, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar FH, við Morgunblaðið.