Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum skrifar: „Jón Bjarnason þingmaður var gestur hjá okkur á Lionsfundi. Hann sagði m.a. að hann saknaði Halldórs Blöndal úr þinginu, því hann hefði oft gaukað að sér vísu.

Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum skrifar: „Jón Bjarnason þingmaður var gestur hjá okkur á Lionsfundi. Hann sagði m.a. að hann saknaði Halldórs Blöndal úr þinginu, því hann hefði oft gaukað að sér vísu. Ég held ég sendi honum þessar með þökk fyrir komuna. Jón á íbúð á Blönduósi og er hér með lögheimili. Eitt af hans baráttumálum er að endurbæta gömlu kvennaskólabygginguna og finna húsunum verðugt hlutverk. Svona má nær því nota sömu orðin bæði til að hæla og hallmæla.“ Og vísurnar eru svohljóðandi:

Ég held að fáir kappann kjósi

sem kroppar vinstri græna haga.

Svo býr hann lítt á Blönduósi

bara sést þar fáa daga.

Ég held að margir kappann kjósi

Kvennaskólann vill hann laga.

Svo býr hann líka á Blönduósi

og berst á þingi flesta daga.

Ingólfur Ómar Ármannsson yrkir um deilur gagnrýnanda og Borgarleikhússins:

Greip þá ókyrrð huga hans

hófst nú mikil þræta

gagnrýni þessa góða manns

Guðjón vildi ei mæta.

Pétur Stefánsson komst varla út af bílaplaninu í gærmorgun fyrir fannfergi:

Öll er byggðin einangruð,

ofankomu er síst að linna.

Heyrðu mig nú góði Guð;

Geturðu látið snjóa minna?

Í lok dags orti hann:

Almættið ég eigi skil,

ekki svarar það bænum mínum,

ennþá gerir svo blindan byl

að borgin öll er horfin sýnum.

pebl@mbl.is