ALÞJÓÐASAMTÖKIN Equality Now hafa veitt 9 grasrótarsamtökum viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf í baráttunni gegn mansali. Samtökin fengu hver um sig 10.

ALÞJÓÐASAMTÖKIN Equality Now hafa veitt 9 grasrótarsamtökum viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf í baráttunni gegn mansali. Samtökin fengu hver um sig 10.000 dollara til starfseminnar og var talskonum þeirra jafnframt boðið til Nepal í desember til þess að leggja á ráðin um framtíðarsamstarf á alþjóðavettvangi. Stígamót eru önnur tvennra samtaka í Evrópu sem hlotnaðist þessi heiður. Hin samtökin eru frá Lettlandi, Kambódíu, Indlandi, Filippseyjum, Bandaríkjunum, Nepal og Perú.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Equality Now beiti sér gegn ofbeldi og hvers kyns órétti gagnvart konum og stelpum hvar sem er í heiminum. Sérstaklega beita samtökin þrýstingi til þess að binda enda á nauðganir, ofbeldi í parasamböndum, mansal, limlestingar á kynfærum kvenna og kynjamisrétti, og efla rétt kvenna til þess að stjórna eigin barneignum og pólitíska þátttöku þeirra. Samtökin njóta mikillar virðingar í jafnréttisgeiranum og ein af áberandi liðskonum þeirra er leikkonan Meryl Streep.

„Baráttan gegn mansali verður aðeins háð með alþjóðlegu samstarfi. Viðurkenning Equality Now er mikil hvatning fyrir starfsemi Stígamóta og mun brýna starfskonur til þess að leggja sig allar fram í baráttunni gegn vændi og mansali,“ segir í frétt frá Stígamótum.