Kennarar njóta mests trausts starfsstétta, sem spurt var um í könnun Gallup fyrir Heimsviðskiptaráðstefnuna, sem sagt var frá í fjölmiðlum í vikunni. 46% Íslendinga treysta kennurum, samanborið við t.d.

Kennarar njóta mests trausts starfsstétta, sem spurt var um í könnun Gallup fyrir Heimsviðskiptaráðstefnuna, sem sagt var frá í fjölmiðlum í vikunni. 46% Íslendinga treysta kennurum, samanborið við t.d. 18% sem treysta blaðamönnum og 9% sem treysta stjórnmálamönnum. Aukinheldur vilja Íslendingar að kennarar ráði meiru en þeir gera; 30% aðspurðra í könnuninni vildu auka völd kennara en aðeins 10% vildu auka völd stjórnmálamannanna.

Þessar niðurstöður eru ekki amalegt veganesti fyrir samtök kennara í þeim viðræðum um kaup og kjör, sem framundan eru. Það er afar mikilvægt, ekki aðeins fyrir kennara heldur fyrir samfélagið allt, að í þeim viðræðum náist fram verulegar kjarabætur fyrir kennarastéttina.

Menntun er undirstaða velgengni þjóðarinnar. Staðan er hins vegar sú, að fólk flýr úr kennarastétt vegna lágra launa og víða er erfitt að manna skólana. Það breytist ekki nema launin hækki og skólarnir geti keppt við fyrirtæki, sem vilja gjarnan nýta starfskrafta kennaramenntaðs fólks.

Hins vegar þurfa kennarasamtökin að breyta um aðferðir ef þau vilja ná árangri í kjaraviðræðunum. Þau eiga til dæmis að vera miklu opnari fyrir sveigjanlegra vinnufyrirkomulagi í skólunum. Á gildistíma síðasta kjarasamnings kennara voru gerðar þrjár tilraunir til að brjótast út úr niðurnjörvuðu vinnutímafyrirkomulagi hans, ein í Ísaksskóla, önnur í Norðlingaskóla og sú þriðja í Sjálandsskóla. Á móti voru kennurum boðin mun hærri laun en þeir nutu áður. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum lagðist Kennarasamband Íslands fast gegn þessum tilraunum.

Kennarasamtökin þurfa sömuleiðis að vera miklu opnari en þau hafa verið fyrir fjölgun sjálfstæðra skóla, sem reknir eru með stuðningi sveitarfélaganna. Aukinn einkarekstur í skólakerfinu eykur samkeppni um starfskrafta kennara og svigrúm til kjarabóta, sem vantar í núverandi kerfi.

Sama er að segja um þá aðferð að kennarar semji við öll sveitarfélögin í heild. Það þýðir í raun að launanefnd sveitarfélaga teygir sig jafnlangt og það sveitarfélag, sem er verst statt, er reiðubúið til. Kennarar ættu að reyna að brjóta upp þetta samflot, þannig að samkeppni skapist milli sveitarfélaganna um kennara.

Leiðin að kjarabótum kennara liggur ekki sízt í því að kjarasamningar þeirra og vinnuumhverfi færist í átt til þess, sem tíðkast á almennum vinnumarkaði. Slík nálgun af hálfu kennarasamtakanna mun áreiðanlega njóta mikils stuðnings hjá almenningi.