— Árvakur/Kristinn Ingvarsson
Það er ekkert náttúrulögmál að skyndibiti sé óhollur. Sólveig Guðmundsdóttir á Culiacan leggur áherslu á að matreiða mexíkóskan mat á heilsusamlegan hátt.

Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Það er óþarfi að setja samasemmerki á milli skyndibita og óhollustu þó að margir tengi skyndibitann öðru fremur við djúpsteiktan og brasaðan mat. Samhliða aukinni vitund um heilsusamlegt mataræði hefur skyndibitastöðum sem leggja áherslu á léttari matreiðslu fjölgað. Einn af þeim er Culiacan þar sem boðið er upp á mexíkóskan, heilsusamlegan mat.

Ekkert dósajukk

„Við leggjum rosalega mikið upp úr því að gera allt frá grunni sjálf. Við búum til allar sósur, salsa og þess háttar á hverjum morgni og notum ferskasta hráefni sem við getum fengið hverju sinni en ekkert dósajukk,“ segir Sólveig Guðmundsdóttir, einn eigenda Culiacan.

„Margir þekkja mexíkóska matargerð aðeins af dósamat sem þeir kaupa úti í búð og hella honum svo saman,“ segir hún og tekur undir að fólk fái hugsanlega ranga mynd af mexíkóskri matargerð gegnum dósamatinn. „Það segir sig náttúrlega sjálft að það sem þú býrð til samdægurs er allt öðruvísi en eitthvað sem er sett í niðursuðudós og er svo kannski á hillunni í einhver ár,“ segir Sólveig.

Saddur án samviskubits

Þó að Sólveig leggi mikið upp úr hollustunni er ekki þar með sagt að maturinn sé ekki saðsamur. „Við höfum talað um að maður verði saddur án samviskubits. Maður verður alveg saddur á þessu og er það allan daginn. Samt er maður að borða rétt, fita er í lágmarki, ekkert majónes og ekkert djúpsteikt. Það besta við þetta er að þetta er ekki þessi dæmigerði heilsumatur sem maður þarf að pína ofan í sig,“ segir Sólveig.

Jafngott heitt og kalt

Sólveig deilir þremur réttum með lesendum 24 stunda. Þar á meðal er uppskrift að quesadillas með kjúklingi. Hún bendir á að útbúa megi quesadillas á marga vegu og upplagt sé að nota afganga. Tortilla og ostur er undirstaðan og svo getur fólk leikið sér með fyllinguna. „Útkoman ræðst af því hvað maður leggur mikið í þetta. Við erum til dæmis að malla sósurnar í marga klukkutíma. Þegar maður gerir það er maturinn alveg jafngóður heitur og kaldur,“ segir Sólveig að lokum.
Í hnotskurn
Sólveig lærði iðnhönnun í Bandaríkjunum þar sem hún bjó ásamt eiginmanni sínum. Hún hannaði meðal annars innréttingar og merki veitingastaðarins. Fyrsta Culican-staðinn opnaði hún árið 2003 og annan 2006.