Eins og kunnugt er stendur yfir vinna við frumvarp til laga um skólastarf í landinu.

Eins og kunnugt er stendur yfir vinna við frumvarp til laga um skólastarf í landinu. Athygli hefur vakið að orðalagið „kristilegt siðgæði“ er tekið út úr markmiðsgrein grunnskólalaganna og í staðinn talin upp verðug hugtök sem þykja endurspegla kristilegt siðgæði. Ég tel afar brýnt að orðalaginu „kristilegt siðgæði“ verði ekki sleppt heldur einnig haldið inni þannig að setningin gæti orðast svona:

„Starfshættir grunnskóla skulu mótast af kristilegu siðgæði svo sem umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Helstu rökin fyrir þessari breytingartillögu eru eftirfarandi: A) Orðalagið kristilegt siðgæði hefur kjölfestu í kristinni hefð og gildismati þjóðarinnar um aldir. B) Til bóta er að telja upp öll hin hugtökin en án viðmiðunarpunkts minnkar vægi þeirra verulega.

C) Í landi þar sem 90 prósent þjóðarinnar eru skráð í kristið trúfélag er þetta mjög eðlilegt og rökrétt.

D) Orðalagið gerir ekki kröfu um trúarjátningu eða trúarafstöðu svo ekki þarf að líta svo á að einungis kristnir menn geti tekið undir það.

Höfundur er sóknarprestur á Hvammstanga