Stuðbolti Marc Romboy hlustaði á Bítlana og Rolling Stones þegar hann var yngri en fyrsta platan sem hann keypti sér var The Robots með Kraftwerk.
Stuðbolti Marc Romboy hlustaði á Bítlana og Rolling Stones þegar hann var yngri en fyrsta platan sem hann keypti sér var The Robots með Kraftwerk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrettánda árslistakvöld Party Zone fer fram á NASA í kvöld og er haldið í samvinnu við Jón Jónsson. Sjóðheitir plötusnúðar frá Þýskalandi, Svíþjóð og, já, okkar ástkæra Íslandi þeyta skífum fram á nótt.

Þrettánda árslistakvöld Party Zone fer fram á NASA í kvöld og er haldið í samvinnu við Jón Jónsson. Sjóðheitir plötusnúðar frá Þýskalandi, Svíþjóð og, já, okkar ástkæra Íslandi þeyta skífum fram á nótt. Arnar Eggert Thoroddsen tók tvo erlenda skífuþeytara tali í tilefni af dansveislunni.

DANSÞÁTTUR þjóðarinnar, eins og hann er kallaður, Party Zone á Rás 2, kynnir árslista sinn í kvöld á milli kl. 19.30 og miðnættis. Síðar sama kvöld verður svo árslistakvöldið svokallaða haldið á NASA. Þar koma fram hinn þýski Marc Romboy og hinn sænski Tomas Andersson. Morgunblaðið lagði nokkrar laufléttar en um leið dúndrandi hressar og stuðvænar spurningar fyrir kauða.

Marc

Marc Romboy hefur hrundið af stað fjölda raftónlistarútgáfna en dagvinnan, ef svo má kalla, snýst um Systematic-útgáfuna sem gerir út frá Berlín. Tónlist Romboy er hústónlist, undir sterkum áhrifum frá Chicago-skólanum.

„Kannski er það vegna þess hversu iðnvætt landið er,“ segir Marc þegar blaðamaður spyr hann hvort hann hafi einhverjar skýringar á hinni góðu heilsu sem þýsk raftónlist hefur notið í gegnum árin.

„Áhrif Kraftwerk eru þá mjög mikil en þýskar útvarpstöðvar tóku að spila lög með henni strax í upphafi áttunda áratugarins þannig að í huga Þjóðverja hefur sú tónlist aldrei verið framandi. Ég held líka að verðlag í borgum eins og Berlín og Köln ýti undir þetta, sjáðu t.d. London sem er rándýr.“

Marc segir danstónlistarsenuna vissulega afar alþjóðlega. Tæknivæðingin hafi gert það að verkum að stutt sé á milli, en þó að teknó sé stundað um allan heim er alltaf einhver blæbrigðamunur á hljómi hvað einstök svæði varðar, einhverra hluta vegna. Þetta heimsþorpslíkan er þá af hinu góða að hans mati, t.a.m. gaf hann út plötu á dögunum með brasilíska raf-/danstónlistarmanninum Gui Boratto en þeir eiga enn eftir að hittast í eigin persónu!

Marc sýtir að geta ekki sinnt tónlistinni meira, en annir í kringum rekstur eru talsverðar. Og hvað áhrifavalda í tónlist varðar tiltekur hann ekki bara tónlistarmenn, heldur umhverfið sjálft; útvarp, sjónvarp, göngutúr um lystigarð og böskarann á götuhorninu.

„En til að svara þessu almennilega þá ólst ég upp við Bítlana og Stones en fyrsta platan sem ég keypti mér var The Robots með Kraftwerk. Þá er ég mikill Kiss-aðdáandi (!). Svo var það nýbylgjan, Joy Division, Smiths og svo varð ég mjög hrifinn af Front 242. Svo komst ég í kynni við danstónlistina í Chicaco og „acid-house“-bylgjuna og þá varð ekki aftur snúið.“

Marc ætlar að gefa sér meiri tíma fyrir fjölskyldu og vini í framtíðinni og hyggst hlaupa meira um í skóginum (hann gefur ekki nánari skýringar á því atferli). Önnur breiðskífa hans, Contrast , kemur svo út í júní.

Tomas

Tomas Andersson er sænskur sveitadrengur sem flutti í borgina (Stokkhólm) og fór að læra lögfræði. Hann byrjaði ferilinn í hljómsveitum en fór svo að þeyta skífum og skipuleggja uppákomur. Hann hefur gefið út tugi platna síðan hann hóf raf-/danstónlistarferilinn ('99). Undanfarið hefur samstarf hans og útgáfunnar Bpitch Control verið einkar farsælt en á vegum þess kom tólftomman Washing Up út árið 2005 og sló í gegn, var m.a. endurhljóðblönduð af hinum kanadíska Tiga.

„Þetta er alltaf að verða betra,“ segir Tomas um raf-/danstónlistarsenuna í Svíþjóð. „Það eru mestmegnis litlir klúbbar sem eru að sinna þessu en það hefur verið ágætt streymi af þekktum erlendum nöfnum í gegnum borgina undanfarin ár. Þeim sem eru að semja svona tónlist fjölgar þá stöðugt.“

Tomas er sammála kollega sínum, Marc, um að danstónlist í dag sé einkar „alþjóðleg“ en alltaf sé hægt að greina ólíkan hljóm og ólíka nálgun, sem sé skemmtilegt.

„Austur-Evrópubúarnir eru t.d. miklu harðari einhvern veginn.“

Hann á ekki í erfiðleikum með að greina á milli viðskiptahliðarinnar og þeirrar listrænu, segist einbeita sér að því skemmtilega (þ.e. að skapa og spila tónlist) og leyfa fólkinu með viðskiptanefið að sjá um þau efni.

Tónlistaráhugi Tomasar beindist fljótt í átt að tölvu- og hljóðgervlatónlist og hann tiltekur nöfn á borð við Kraftwerk og Jean Michel Jarre og einnig diskó frá áttunda áratugnum.

„Þá verð ég að nefna The Stooges og Velvet Underground. Svo hefur Elvis alltaf verið til staðar fyrir mig.“

Hann segist eiga erfitt með að sjá fyrir sér að hann geri ekki tónlist í framtíðinni.

„Fyrir mig er þetta sálarhreinsandi ferli og ég verð að gera þetta, hvort sem einhver er að hlusta eða ekki.“

Meira

Auk þeirra Marcs og Tomasar mun sænska snúðatvíeykið Super Diskant þeyta skífum og fulltrúar Fróns verða DJ Casanova og DJ Lazer.

arnart@mbl.is

Sjá nánar á www.pz.is og www.jon-jonsson.com