MORGUNBLAÐINU barst í gær eftirfarandi ályktun sem var samþykkt á fundi miðstjórnar og samninganefndar Rafiðnaðarsambandsins hinn 18. janúar 2008: „Á fundi miðstjórnar og samninganefnda Rafiðnaðarsambandsins 18. jan.

MORGUNBLAÐINU barst í gær eftirfarandi ályktun sem var samþykkt á fundi miðstjórnar og samninganefndar Rafiðnaðarsambandsins hinn 18. janúar 2008:

„Á fundi miðstjórnar og samninganefnda Rafiðnaðarsambandsins 18. jan. 2008 var fjallað ítarlega um þá stöðu sem er komin upp í yfirstandandi kjarasamningum. Á fundinn mættu auk þess forsetar og framkvæmdastjóri ASÍ. Áberandi var á fundinum reiði yfir ábyrgðarleysi framkvstj. SA með því að keyra samningaviðræður í algjöran hnút með óskiljanlegum inngripum og útúrsnúningi á tillögum stéttarfélaganna í fyrstu viku þessa árs.

Rafiðnaðarsambandið samþykkti á fundi 28. nóv. síðastl. að taka þátt í sameiginlegri aðkomu ASÍ-félaganna að kjarasamningsgerð. Í samþykkt Rafiðnaðarsambandsins kom m.a. fram „Helsta ástæða þess er gríðarleg óvissa um efnahagslegar forsendur. Það er við þessar aðstæður sem kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna um næstu áramót. Rafiðnaðarsambandið hefur ásamt öðrum aðildarsamtökum Alþýðusambandsins þegar hafið viðræður við samtök atvinnurekenda og lagt fram áherslur sínar. Rafiðnaðarsambandið telur mikilvægt að við þessar aðstæður verði gerður sáttmáli milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um samræmda stefnu í kjara-, efnahags-, atvinnu- og félagsmálum.“ Um áramótin voru viðræður komnar vel af stað og fyrir lá vilji aðila um að semja til tveggja ára, ásamt því að búið var að draga upp útlínur og umfang aðkomu ríkisstjórnar. En öllum að óvörum sprengdi SA þetta í loft upp í fyrstu viku þessa árs og fékk ríkisstjórnina í lið með sér. Eðlileg viðbrögð landssambandanna voru að draga upp sínar kröfugerðir. Við þessar aðstæður væru engar forsendur til þess að gera samning til lengri tíma en eins árs og RSÍ lagði fram ítarlegar tillögur að árssamningi. Miðvikudaginn 16. janúar kemur SA enn öllum að óvörum og krefst fjögurra ára samnings.

Miðstjórn RSÍ fordæmir ruglingsleg vinnubrögð SA og algjört stefnuleysi. SA hefur með þessu hátterni sýnt ábyrgðarleysi og fengið ríkisstjórnina til þess að sýna efnahagsstjórninni sama ábyrgðarleysi. SA hefur lítilsvirt þann vilja sem samtök launamanna höfðu sýnt um samvinnu í mótun efnahagsstefnu og hefur tekið upp vinnubrögð sem aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki viðhaft frá því þjóðarsátt var gerð.

Rafiðnaðarmenn hafna þátttöku í sjónleik framkvæmdastjóra SA. Honum er heimilt að helga sér sviðið allt, en meðan sá sjónleik stendur verða ekki gerðir kjarasamningar og undirstöður efnahagslífsins veikjast. SA verður að gera hreint fyrir sínum dyrum og koma fram með einhverja stefnu. Stefnu sem SA væri tilbúið að standa við þó það væri ekki nema út samningstímann.“