Eftir Þórð Snæ Júlíusson thordur@24stundir.is Samkeppniseftirlitið hefur nú eignarhald Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í Hitaveitu Suðurnesja (HS) til skoðunar.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@24stundir.is

Samkeppniseftirlitið hefur nú eignarhald Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í Hitaveitu Suðurnesja (HS) til skoðunar. Athugunin er í flýtimeðferð hjá stofnuninni þar sem niðurstaða verður helst að liggja fyrir áður en gengið verður frá kaupum OR á hlut Hafnfirðinga í HS, en það verður í síðasta lagi í byrjun mars næstkomandi.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir það ekki liggja alveg fyrir hvenær athuguninni lýkur. „Við lýstum því yfir í undirbúningsferli við sölu á hlut ríkisins að það yrði skoðað vel ef eignatengsl kæmu upp milli keppinauta á þessum þrönga markaði. Athyglin beinist fyrst og fremst að þessum eignatengslum.“

Niðurstaða áður en OR kaupir

Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR, segir samkeppnisyfirvöld hafa heyrt afstöðu allra málsaðila og fengið öll gögn málsins afhent. „Við höfum reynt að ýta á að niðurstaðan liggi fyrir áður en til loka þessara samninga um kaup á hlut Hafnarfjarðar kemur. Ef við kaupum en það yrði síðan ógilt þá er ekkert víst að peningar fyrir hlutnum séu enn til hjá Hafnfirðingum. Þeir gætu verið búnir að nota þá til skynsamlegri hluta. Ég held að Samkeppniseftirlitið geri sér líka grein fyrir því að þeir verði að klára sína vinnu fyrir þann tíma.“

Engir fyrirvarar í samningnum

Gunnar Svavarsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, segir enga fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda í kaupsamningnum milli OR og Hafnarfjarðar. „Það er þannig að þegar gert er tilboð eins og þetta er gert ráð fyrir því, eins og í öðrum málum, að stór aðili eins og Orkuveitan standi við sitt á sama hátt og sveitarfélög verða að standa við sitt. Það er enginn fyrirvari í tilboði Orkuveitunnar. Þar af leiðandi myndu menn fyrst og fremst líta svo á að það væri Orkuveitunnar að leysa úr þeim vandamálum sem kæmu upp vegna samkeppnishindrana.“
Í hnotskurn
Þegar íslenska ríkið seldi rúm 15 prósent í HS í fyrra var tekið fram að opinber orkufyrirtæki mættu ekki bjóða í hlutinn vegna þess að það stæðist ekki samkeppnislög. OR, sem er opinbert orkufyrirtæki, á í dag 16,6 prósenta hlut og hefur gert samning um kaup á 15,4 prósenta hlut til viðbótar.