Hafnarborg „Eiríkur Smith er vel kynntur hér með flennistórum og kraftmiklum abstraksjónum“.
Hafnarborg „Eiríkur Smith er vel kynntur hér með flennistórum og kraftmiklum abstraksjónum“.
Til 3. mars. Opið alla daga nema þri. frá kl. 11–17 og til 21 á fim. Aðgangur ókeypis.

HAFNARBORG á 25 ára afmæli á árinu og efnir í því tilefni til afmælissýningar á verkum úr safneign sinni en Hafnarborg hýsir einnig listaverkaeign Hafnarfjarðarbæjar. Hér kennir margra grasa. Grafíkverk eru áberandi á neðri hæð þegar inn er komið og kallast svart–hvít verk eftir Hörð Ágústsson skemmtilega á við verk eftir Peter Ruppel við dyrnar. Frásagnarkenndar og fígúratívar myndir Elíasar B. Halldórssonar minna á sérstöðu Elíasar innan íslenskrar myndlistar. Stórar sérsniðnar myndir Tryggva Ólafssonar eru kraftmiklar og lífga upp á rýmið. Málverk eftir Þórarin B. Þorláksson, Saurbær á Rauðasandi, er rómantískt og ljúft en ýmsar myndir sem sýna Hafnarfjarðarbæ, málverk og grafík, heldur misjafnar, þó er í þeim sú nostalgíska birta sem einkennir sýn fyrstu landslagsmálaranna á landið.

Á efri hæð er fjölbreytt úrval málverka. Litríkt flæði mynda Bjarna Sigurbjörnssonar mætir manni á stigavegg, Eiríkur Smith er vel kynntur hér með flennistórum og kraftmiklum abstraksjónum á endavegg, tvær myndir eftir Jóhann Briem njóta sín ekki alveg eins vel en miðla þó hans einstöku sýn. Jón Óskar nýtur sín vel í stóru verki sem byggist á endurtekningu mynsturforma og kallast á við áleitið málverk eftir Tróndur Patursson. Yngri málarar á borð við Jónas Viðar og Kristleif Pétursson eru hér einnig.

Úrval úr stóru listaverkasafni, en hér er aðeins fátt eitt upp talið, getur í sjálfu sér aldrei orðið annað en hrærigrautur, sýnishorn strauma og stefna. Leitast er við að tengja heildina innbyrðis með því að mála suma veggina í dökkum litum og fer það ágætlega. Sýningin ber áherslum Hafnarborgar nokkurt vitni; grafíkverk í úrvali, sterk málverk og tengsl við Færeyjar en hér hafa færeyskir málarar verið vel kynntir í gegnum tíðina. Hafnarborg hefur oftlega sýnt framsækin verk og unnin í margs konar miðla en hér er megináherslan á grafík og málverk. Hafnarfjörður sem endurtekið mótíf ljær síðan sýningunni dálítið sjarmerandi andblæ.

Ragna Sigurðardóttir