ÞRÍR fyrrverandi fíkniefnalögreglumenn í New York hafa höfðað mál á hendur Universal Pictures kvikmyndarisanum vegna ásakana sem koma fram á hendur þeim í stórmyndinni American Gangster .

ÞRÍR fyrrverandi fíkniefnalögreglumenn í New York hafa höfðað mál á hendur Universal Pictures kvikmyndarisanum vegna ásakana sem koma fram á hendur þeim í stórmyndinni American Gangster . Þremenningarnir fara fram á samanlagt 55 milljónir dollara í skaðabætur, en það nemur rúmlega 3,5 milljörðum íslenskra króna. Ástæðan er sú að í myndinni eru þeir allir gerðir að miklum skúrkum, en American Gangster er sannsöguleg mynd sem fjallar um fíkniefnabaróninn Frank Lucas. Þegar lögreglunni í New York tókst að hafa hendur í hári Lucas hóf hann að hjálpa lögreglunni, og samkvæmt myndinni kom hann upp um mikinn fjölda spilltra lögreglumanna sem höfðu unnið náið með honum og öðrum glæpamönnum í borginni. Í lok myndarinnar kemur fram að með hjálp Lucas hafi tekist að sakfella þriðjung allra fíkniefnalögreglumanna í New York, en því mótmæla þeir Louis Diaz, Gregory Korniloff og Jack Toal harðlega. Lögmaður þeirra félaga heldur því fram að engir lögreglumenn hafi verið sakfelldir í kjölfar upplýsinga frá Lucas. Í yfirlýsingu frá verjendum Universal Pictures kemur hins vegar fram að fyrirtækið standi við það sem fram kemur í myndinni.

Vilja ekki bara bætur

„Með þessari yfirlýsingu svertir verjandinn mannorð fjölda heiðarlegra og hugrakkra opinberra starfsmanna, og kemur óorði á þá á meðal milljóna íbúa borgarinnar,“ segir meðal annars í yfirlýsingu frá lögmanni þremenninganna.

Þeir höfða málið í nafni u.þ.b. 400 fíkniefnalögreglumanna sem störfuðu í New York á árunum 1973 til 1985. Auk skaðabótanna fara þeir fram á að dreifingu myndarinnar verði hætt, eða að texta sem birtist í lok hennar verði breytt. Þá vilja þeir að allur ágóði af myndinni renni í styrktarsjóð bandarískra fíkniefnalögreglumanna.

Leikstjóri American Gangster er Ridley Scott, en með aðalhlutverkin fara þeir Denzel Washington og Russell Crowe. Myndin sló í gegn beggja vegna Atlantsála nú í haust.