Frá Önnu Jórunni Stefánsdóttur: "ÞEIR eru víða, biðlistarnir í heilbrigðiskerfinu. Félagsmálaráðherra hefur boðað auknar fjárveitingar til að stytta biðlistana á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Það mun vera full þörf á, en kostar sitt fyrir ríkið (skattborgarana)."

ÞEIR eru víða, biðlistarnir í heilbrigðiskerfinu. Félagsmálaráðherra hefur boðað auknar fjárveitingar til að stytta biðlistana á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Það mun vera full þörf á, en kostar sitt fyrir ríkið (skattborgarana). Einhverjar milljónir nefndar í því samhengi.

Heilbrigðisráðherra kann miklu árangursríkari, fljótvirkari og „ódýrari“ leið til að stytta biðlista. Eftir að flestir talmeinafræðingar landsins sögðu sig frá samningi við Tryggingastofnun ríkisins vegna samstarfsörðugleika við stofnunina, hefur ráðherra gefið út reglugerð um styrk til handa þeim sem nú verða sjálfir að greiða fyrir talþjálfun fyrir sjálfa sig eða börn sín. Eitt af því sem þessi reglugerð hefur til síns „ágætis“ er það, að ríkið hefur minnkað greiðslur vegna talþjálfunar um u.þ.b. helming.

Nú er það staðreynd að langflestir sem þurfa á talþjálfun að halda eru börn og ungmenni. Ekki veit ég hvort „þessi aðgerð er í anda áherslu ríkisstjórnarinnar að bæta þjónustuna við börn og ungmenni“ eins og heilbrigðisráðherra hefur orðað svo fallega í fjölmiðlum undanfarið, en hitt veit ég að þar sem fjölmargir hafa ekki lengur efni á að nýta sér þjónustu talmeinafræðinga, þótt þeir eða börn þeirra þurfi sárlega á henni að halda, munu biðlistar í talþjálfun styttast fljótt og örugglega.

ANNA JÓRUNN

STEFÁNSDÓTTIR,

Bjarkarheiði 19, Hveragerði

Frá Önnu Jórunni Stefánsdóttur