[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir H Ingólfsson asgeirhi@mbl.is Litlu myndirnar sem slá í gegn á þessum árstíma og hala jafnvel inn óskarstilnefningu, sbr. Juno núna og Little Miss Sunshine í fyrra, eru iðulega myndir sem voru uppgötvaðar í Sundance – ári áður.

Eftir Ásgeir H Ingólfsson

asgeirhi@mbl.is

Litlu myndirnar sem slá í gegn á þessum árstíma og hala jafnvel inn óskarstilnefningu, sbr. Juno núna og Little Miss Sunshine í fyrra, eru iðulega myndir sem voru uppgötvaðar í Sundance – ári áður. Þetta langan tíma tekur það einfaldlega minni spámenn að ná athygli fjöldans þegar ekki eru til staðar tugmilljónir dollara í kynningarstarf. En því er ástæða til þess að taka forskot á sæluna og kanna hvaða myndir má uppgötva á Sundance-hátíðinni sem er nýhafin – í veikri von um að myndin sem allir verða að tala um að ári verði talin með.

Funny Games er endurgerð frönsku myndarinnar Caché og skartar Naomi Watts og Tim Roth í aðalhlutverkum. Það er austurríski leikstjórinn Michael Haneke sem leikstýrir hér endurgerð eigin myndar. Einnig má nefna heimildarmyndina Anvil! um samnefnda hljómsveit sem var áhrifavaldur Metallicu, Slayer og Anthrax – en náði samt aldrei neinni frægð sjálf. En þótt þeir séu á sextugsaldri þá eru þeir enn að taka upp tónlist og heit blóðbræðralagsins sem meðlimirnir gengu í fjórtán ára enn í fullu gildi – að rokka að eilífu.

Í einni af myndum frönsku kvikmyndahátíðarinnar sem nú stendur yfir, 2 Days in Paris , reynir par nokkuð að lífga við kulnaðar glæður með því að bregða sér til Parísar. Slíkt er hins vegar alltof hefðbundið fyrir þau Woody Harrelson og Emily Mortimer, en ferðalagið sem þau taka í staðinn fyrir hjónabandsráðgjöf er lestarferð frá Kína til Moskvu með Síberíuhraðlestinni frægu í myndinni Transsiberian . En vitaskuld þvælast morð og blekkingar um borð í lestinni fyrir rómantíkinni – þótt aldrei sé að vita nema slíkt sé einmitt neistinn sem þarf.

Fleiri óvenjulega ferðalanga má finna á Sundance, einn þeirra er heimildarmyndagerðarmaðurinn Morgan Spurlock. Hann var fyrst frægur fyrir að sporðrenna þúsundum hamborgara í Super Size Me og hefur nýlegið unnið við sjónvarpsþættina 30 Days . En nú hefur hann tekist á við verkefni sem sjálfu heimsveldi vorra tíma hefur mistekist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunar – að finna sjálfan holdgerving illskunnar, Osama bin Laden. Nafn myndarinnar er spurning; Where in the World is Osama bin Laden? Kannski með poppkorn í myrkvuðum bíósal?

Aðdáendur léttvínsdramagamansins Sideways láta varla Bottle Shock fram hjá sér fara. Þetta er sannsöguleg mynd með Alan Rickman og Bill Pullman í aðalhlutverkum um fræga vínsmökkun frá árinu 1976, þekkta undir nafninu „Dómsdagur í París“. Þar börðust frönsk vín við bandarísk vín frá Kaliforníu um hylli vínsmakkara og keppnin var blindandi, smakkarar fengu ekki að vita hvaðan vínin voru. Hið óhugsandi gerðist, bandarísku vínin urðu hlutskarpari og í kjölfarið opnuðust vínmarkaðir heimsins loks fyrir vínum utan Evrópu.