Nýtt deiliskipulag um miðbæ Álftaness getur teflt margæsastofninum í hættu. „Gæsunum hefur fjölgað undanfarin ár og stöðugt er verið að taka af þeim land. Með þessu áframhaldi kemur að því að stofninn hrynji þarna,“ segir Guðmundur A.

Nýtt deiliskipulag um miðbæ Álftaness getur teflt margæsastofninum í hættu. „Gæsunum hefur fjölgað undanfarin ár og stöðugt er verið að taka af þeim land. Með þessu áframhaldi kemur að því að stofninn hrynji þarna,“ segir Guðmundur A. Guðmundsson dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, sem hefur gert rannsóknir á margæsum hér á landi.

Ástæðan er færsla Norðurnesvegar inn á búsetusvæði gæsanna sem gert er ráð fyrir í skipulaginu, ásamt byggingum sem rísa eiga við veginn. Gæsirnar forðast mannabústaði og því skerðist búsetusvæði þeirra, sem er 12-16 ha, líklega um 5 ha í heildina, eins og fram kom í 24 stundum í gær.

Gegn margæsasáttmálanum

Guðmundur segir deiliskipulagið ganga í berhögg við samstarfsyfirlýsingu um mikilvægi Álftaness fyrir margæsir sem þáverandi bæjarstjórn Álftaness og Umhverfisráðuneytið undirrituðu 2004.

Markmið samstarfsins eru tvö, annars vegar „að stuðla að góðri umgengni manna við margæsina á Álftanesi“ svo hún geti búið sig undir flug til varpstöðva sinna í Norður-Kanada. Hins vegar að auka skilning og þekkingu á tegundinni og dvöl hennar á landinu.

Álftanes alþjóðlega mikilvægt

„Samkvæmt skilgreiningu þarf 1% stofnsins að dvelja reglubundið á svæði svo það teljist alþjóðlega mikilvægt. Á túnunum á Álftanesi dveljast um 10% þessa stofns á vorin og á túninu sem á að malbika eru iðulega um 1000 margæsir eða 3% stofnsins,“ segir Guðmundur en í stofninum eru um 25000 gæsir. Hluti þeirra kemur við á Íslandi og safnar fituforða fyrir flug til varpstöðvanna í Kanada.

thorakristin@24stundir.is